Á fundi bæjarráðs Árborgar í síðustu viku voru ræddar hugmyndir sem fram hafa komið um að byggja alþjóðaflugvöll á landsvæðinu milli Selfoss og Stokkseyrar. Rætt var um rannsóknir sem þyrfti að gera til að meta hvort hugmyndin væri raunhæf. Á fundinn mættu Andri Björgvin Arnþórsson, Sigtryggur Arnþórsson og Páll Heiðar Pálsson, ásamt Páli Bjarnasyni frá verkfræðistofunni Eflu. Framkvæmdastjóra sveitarfélagsins var falið að koma á starfshópi um verkefnið. Um 90% erlendra ferðamanna sem koma til landsins fara um Suðurland og því þykir áhugavert að kanna möguleika á flugvelli við Selfoss.