-5 C
Selfoss

Afurðastöðvar framtíðarinnar

Vinsælast

Afurðastöðvarnar láta eins og óstýrilátur og vanþakklátur unglingur sem hefur tekið yfir heimilið. Bændur, eigendur afurðastöðvanna, þurfa að hætta að verja þær og fara að aga þær því það er afurðastöðvunum fyrir bestu inn í framtíðina. Uppeldið felst í góðu aðhaldi og aukinni samkeppni. Við sáum hversu góð áhrif koma erlendrar verslunarkeðju hafði á framreiðsluhætti og sýndi okkur að það er vel hægt að auka neyslu á lambakjöti með því að aðlaga sig að breyttum neysluháttum og aðstæðum. Það er í raun hneyksli að afurðastöðvarnar hafi ekki verið búnar að átta sig á því fyrir 15 árum að sú tíð er liðin að hægt sé að bjóða neytendum upp á frosið kjöt í iðnaðarplastpokum. Íslenskar nútímafjölskyldur kaupa slíka vöru kannski einu sinni á ári… ef það! Og ferðamaðurinn kaupir þetta aldrei. Við þekkjum það sjálf, þegar við ferðumst erlendis, þá langar okkur að bragða þarlendar landbúnaðarafurðir og veljum þá girnilega framsetningu sem er auðveld til neyslu.

Ég heyri oft að íslenskir verslunaraðilar hafi hingað til ekki viljað selja lamba- eða kindakjöt í nýstárlegri umbúðum og það hafi staðið afurðastöðvunum fyrir þrifum í sinni vöruþróun. Það finnst mér langsótt enda sýnir nýja Icelandic Lamb vörulínan að þetta er vel hægt, hún kemur bara mjög seint fram og ekki af frumkvæði þeirra sem hafa það hlutverk að koma íslenskum lambakjötsafurðum í verð, þ.e. afurðastöðvanna og bændaforystunnar.

Bændaforystan og afurðastöðvarnar hafa nýtt hundruði milljóna af almannafé í „markaðssetningu erlendis“ sem hefur í raun að miklu leyti falist í niðurgreiðslu á útflutningi í stað þess að verja fjármagninu í nýsköpun, vörukynningu og síðan markaðssetningu hérlendis. Og áttum okkur á því að í dag er markaðssetning hérlendis líka markaðssetning erlendis því nú tökum við á móti yfir 2.000.000 erlendra ferðamanna og mögulegra framtíðar neytenda íslenskra landbúnaðarafurða erlendis. Auðvitað þarf að kynna vörurnar fyrir versluninni og neytendum áður en að hún þær eru teknar í hillur. Það er ekkert öðruvísi með þessa framleiðslu en aðra vöruframleiðslu. Við ættum að vera komin miklu lengra, en afurðastöðvarnar hafa því miður dregið lappirnar.

Afurðastöðvarnar eiga ekki að standa í vegi fyrir framsókn bænda. Bændur eiga að fá aukið frelsi til að selja viðskiptavinum sínum landbúnaðarafurðir beint og milliliðalaust. Íslensk stjórnvöld eiga að einfalda regluverkið og auðvelda bændum að gera það. Þannig aukum við nauðsynlegt aðhald með afurðastöðvunum og nýsköpun í greininni. Afurðastöðvarnar verða nefnilega að átta sig á því að ef þær vilja ná árangri, þá verða þær að vinna heimavinnuna sína og ávinna sér þannig traust á ný. Annars falla þær. Bændur eiga betra skilið. Breytum kerfinu!

Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar og oddviti flokksins í Suðurkjördæmi.

Nýjar fréttir