2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Verndarsvæði í byggð á Eyrarbakka

Verndarsvæði í byggð á Eyrarbakka

0
Verndarsvæði í byggð á Eyrarbakka

Haustið 2016 sótti Sveitarfélagið Árborg um styrk til Minjastofnunar til að vinna tillögu að verndarsvæði í byggð fyrir svæðið frá Einarshafnarhverfi að Háeyrarvöllum 12 á Eyrarbakka. Var það í fyrsta skipti sem opið var fyrir umsóknir vegna slíkra verkefna og byggja styrkveitingarnar á lögum um verndarsvæði í byggð sem tóku gildi á árinu 2015.

Umsókn Árborgar var samþykkt, líkt og umsóknir 19 annarra sveitarfélaga. Landform ehf. á Selfossi var fengið til að stýra vinnunni, auk þess sem sérfræðingar á ýmsum sviðum voru fengnir til að vinna afmarkaða hluta verkefnisins, svo sem fornleifa- og húsaskráningu. Svanhildur Gunnlaugsdóttir og Oddur Hermannsson, landslagsarkitektar, halda utan um verkefnið. Margrét Hallmundsdóttir annast fornleifaskráningu, starfsmenn Héraðsskjalasafns Árnesinga, þau Þorsteinn Tryggvi Másson og Guðmunda Ólafsdóttir, annast skráningu sögulegra upplýsinga og Lýður Pálsson frá Byggðasafni Árnesinga kemur einnig að sögulegum hluta verkefnisins. Sá hluti húsakönnunar sem snýr að byggingarlist er í höndum Guðlaugar Ernu Jónsdóttur, arkitekts. Verkefnið er unnið á grundvelli leiðbeininga Minjastofnunar Íslands sem fer með lykilhlutverkið í þessu máli.

Meginmarkmið laganna er að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur menningarsögulegt gildi og er innan þéttbýlis. Við gerð verndartillögu er mikil áhersla lögð á svipmót byggðarinnar og skal meta það ásamt samspili þátta á borð við útlit húsbygginga, einkenni þeirra og tengsl við staðhætti og umhverfi. Leggja ber mat á varðveislugildi einstakra húsa og annarra mannvirkja, s.s. hlaðinna garða auk þess sem götumyndir og húsaþyrpingar skulu metnar.

Verkefnið á Eyrarbakka tekur yfir mun stærra svæði og fleiri hús en þau verkefni sem nú er unnið að á öðrum stöðum á landinu. Einstakt og aðdáunarvert er hve vel hefur tekist að varðveita mikinn fjölda húsa og mannvirkja á Eyrarbakka og hve mikið af minjum eru í dag sýnilegar. Ber fyrst og fremst að þakka það framsýni einstaklinga á Eyrarbakka á þeim tímum þegar víða var unnið að því að fjarlægja gömul hús og afmá minjar af ýmsu tagi.

Vinna við fornleifaskráningu og húsakönnun stendur nú yfir og var nýlega haldinn kynningarfundur á verkefninu á Eyrarbakka. Þar kom m.a. fram að vinna við öflun sögulegra heimilda og innmælingu minja væri langt komin og verið væri að vinna úr þeim upplýsingum nú á hausti komandi. Fyrir hendi hafi verið góður gagnagrunnur, svo sem húsakönnun sem unnin var af Lilju Árnadóttur hjá Þjóðminjasafni Íslands fyrir Eyrarbakka og gefin út á árinu 1989 auk þess sem Byggðasafn Árnesinga vann að fornleifaskráningu fyrir Sveitarfélagið Árborg fyrir nokkrum árum. Íbúafundurinn var fjölsóttur og mátti merkja talsverðan áhuga íbúa á verkefninu.

Sú vinna sem framundan er, er gerð greinargerðar, þar sem fjallað verður um varðveislugildi þess svæðis sem lagt er til að verði gert að verndarsvæði og uppbyggingu innan þess. Með samþykki Minjastofnunar mun greinargerðin, rökstuðningur fyrir varðveislugildi og verndarskilmálar að lokum fylgja tillögu bæjarstjórnar Árborgar til forsætisráðherra, þar sem lagt verður til að svæði á Eyrarbakka frá Einarshafnarhverfi að Háeyrarvöllum 12 verði gert að verndarsvæði í byggð.

Þeir sem búa yfir upplýsingum eða gögnum sem nýtast verkefninu, svo sem um sögu húsa, minjastaði eða eiga gamlar ljósmyndir og teikningar frá Eyrarbakka, eru hvattir til að hafa samband við Svanhildi Gunnlaugsdóttur hjá Landform eða aðra ráðgjafa verkefnisins. Ennfremur eru þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í samráðshópi, sem mun m.a. fjalla um verndarflokka og skilmála tillögunnar, hvattir til að hafa samband við Svanhildi. Þá er einnig áformað að ráðgjafar verkefnisins verði á Eyrarbakka við upplýsingasöfnun og samráð við íbúa síðar í ferlinu og verður það auglýst vel þegar þar að kemur.

Hafa má samband við ráðgjafa gegnum eftirfarandi netföng og símanúmer:

Svanhildur Gunnlaugsdóttir: svanhildur@landform.is, sími 482 4090, Oddur Hermannsson: oddur@landform.is, sími 482 4090, Margrét H. Hallmundsdóttir: margrethronn@gmail.com, sími 895 1228, Þorsteinn Tryggvi Másson: thorsteinn@heradsskjalasafn.is, sími 482 1259 og Guðlaug Erna Jónsdóttir: sigtun39@simnet.is.

F.h. stýrihóps,
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.