Hljómsveitin Skítamórall fagnar því að um þessar mundir að 35 ár eru frá því að sveitin kom fyrst fram en það var árið 1990. Sveitin var stofnuð á Selfossi af fjórum æskufélögum, þeim Hebba, Hanna, Gunna og Adda árinu áður eða 1989. Eftir mikla vinnu og ferðalög um landið með stærri sveitum sprakk svo sveitin út árið 1997 og frá árinu 1998 hefur hún verið ein sú vinsælasta á Íslandi. Það er engum blöðum um það að fletta að þegar tímabilið í kringum aldamótin er gert upp í tónlistarlegu samhengi þá voru þeir kóngar í ríki sínu. Nafn sveitarinnar er samofið Buffaló-skóm, tribal-húðflúri, sveittum samkomuhúsum og Séð og heyrt. Hljómsveitin fagnar þessum tímamótum með afmælistónleikum í Háskólabíói 11. apríl.
Eldhúspartý og „bestir á balli“
Undirbúningur fyrir afmælistónleikana hefur staðið yfir frá því um áramót. Tónleikarnir verða settir þannig upp að fyrri hluti þeirra verður órafmagnaður, í svokallaðri eldhúspartýuppsetningu en hljómsveitin var ein þeirra sem ruddi braut órafmagnaðra viðburða í þá veru um aldamótin. Hélt meðal annars fyrsta Eldhúspartý FM957 á hinum goðsagnakennda veitingastað Astró árið 1998. Eftir hlé verður svo Háskólabíó nánast breytt í Njálsbúð og allt sett í botn. Hljómsveitin hlaut titilinn bestir á balli ár eftir ár á Hlustendaverðlaununum FM957. Líklega hefur skipuleggjendum verðlaunanna þótt nóg um, enda hefur verðlaunaflokkurinn verið felldur niður.

Lagið Sælan í nýjum búning
Hljómsveitin sendi frá sér nýtt lag á dögunum. Lagið heitir Sælan og er þekkt stef úr sögu sveitarinnar og er komið á út á allar streymisveitur. Lagið og textinn eru eftir forsöngvarann og gítarleikarann Gunnar Ólasson sem samdi lagið aðeins 19 ára gamall þegar hljómsveitin var að slíta barnsskónum á Selfossi. Upptökum á nýju útgáfunni stjórnuðu Hákon Guðni Hjartarson, Halldór Gunnar Pálsson og Einar Bárðarson. Sælan er þó ekki glænýtt lag, því það kom fyrst út árið 1995 á fyrstu plötu Skítamórals, sem hét Súper. Þeir sem gera sér ferð inn á hlaðvarpsveitur og hlusta á þessa fyrstu upptöku af laginu heyra að á þessu lagi verður í raun til Skítamóralshljómurinn. Það var þó ekki augljóst þá en mörg vinsælustu lög hljómsveitarinnar næstu ár og áratugi bera með sér ákveðin höfuðeinkenni Sælunnar frá 1995.

Þrjátíu ára saga í þremur málsgreinum
Skítamórall er íslensk hljómsveit sem var stofnuð árið 1989 af þeim Gunnari Ólasyni söngvara og gítarleikara, Herberti Viðarsyni bassaleikara, Jóhanni Bachmanni Ólafssyni trommara og Arngrími Fannari Haraldssyni gítarleikara. Þeir eru allir fæddir árið 1976 og koma frá Selfossi. Það var hálfbróðir Arngríms, Einar Bárðarson, sem lagði til að nafnið Skítamórall yrði notað. Hljómsveitin gaf út sinn fyrsta geisladisk, Súper árið 1996. Tjútt fylgdi svo í kjölfarið árið 1997, Nákvæmlega árið 1998 og Skítamórall árið 1999. Sveitin náði strax nokkrum vinsældum með fyrstu tveimur diskunum sínum en geisladiskurinn Nákvæmlega náði að festa sveitina í sessi sem eina af vinsælustu sveitaballahljómsveitum landsins. Einar Ágúst Víðisson bættist í hópinn árið 1997 þegar hljómsveitin spilaði á Þjóðhátíð í Eyjum sem söngvari, ásláttursleikari og gítarleikari.

Geisladiskurinn Nákvæmlega, sem innihélt m.a. lagið „Farin“ sem náði miklum vinsældum og var á toppi íslenska listans í þrjár vikur árið 1998, hlaut gullplötu. Árið 2000 var hins vegar toppur ferilsins hjá strákunum í Skítamóral en sveitin hætti í kjölfar mikillar vinnu í byrjun árs 2001. Skítamórall kom saman aftur á Hlustendaverðlaunum FM957 haustið 2002. Sumarið 2004 lék hljómsveitin víða um land en síðsumars skildi Einar Ágúst við hljómsveitina. Árið 2005 gaf hljómsveitin út sína fimmtu hljómplötu sem hlaut nafnið Má ég sjá og gerði hljómsveitin myndbönd við nokkur lög af plötunni sem leikstýrð voru af Hannesi síðar landsliðsmarkverði í fótbolta.

Í byrjun árs 2009 gekk gítarleikarinn Gunnar Þór Jónsson til liðs við hljómsveitina sem síðar sama ár hélt upp á 20 ára afmæli með tónleikum á Rúbín við Öskjuhlíð. Í kjölfarið var gefinn út tónleikadiskurinn Ennþá en á disknum fylgdi einnig DVD með öllum myndböndum hljómsveitarinnar. Einar Ágúst gekk aftur til liðs við hljómsveitina árið 2014 en hefur á ný sagt skilið við sveitina.
