7.9 C
Selfoss

Bæjarstjórinn gæti spilað með Hamri í sumar

Vinsælast

Pétur G. Markan bæjarstjóri Hveragerðisbæjar er líklegur til að spila með meistaraflokki Hamars í fótbolta í sumar. Samkvæmt heimildum Fótbolti.net verður hann til taks fyrir liðið. Valdimar Unnar Jóhannsson, þjálfari Hamars, staðfestir þetta við miðilinn.

Pétur sem er fæddur árið 1981 er með töluverða reynslu í fótbolta en hann spilaði síðast með Herði Ísafirði árið 2018. Hann á að baki 283 meistaraflokksleiki og hefur skorað 95 mörk.

„Pétur Markan skipti yfir, bæjarstjórinn sjálfur. Hann sagðist geta tekið einhverjar mínútur í sumar ef vantaði. Ég sá hann á firmamóti um síðustu helgi og hann leit ágætlega þar. Við sjáum hvort hann geti ekki komið með einhverjar innkomu síðustu tíu mínúturnar eða eitthvað. Við erum að sækja í reynsluna,“ segir Unnar í samtali við Fótbolti.net og bætir við að það séu ekki mörg lið með bæjarstjórann í hóp.

Pétur segir að honum finnist það vera skylda allra bæjarstjóra að skrá sig í félag bæjarins. „Maður fær kannski þrjár mínútur í sumar en annars verð ég bara á hliðarlínunni og fylli á brúsana,“ segir Pétur í samtali við Dagskrána. Hann bætir við að það séu bjartir tímar framundan í fótboltanum í Hveragerði, en unnið er að nýjum stórum fótboltavelli um þessar mundir sem mun nýtast félaginu vel.

Nýjar fréttir