Leikfélag Menntaskólans að Laugarvatni er að setja upp leikritið vinsæla Döflaeyjuna. Djöflaeyjan er byggð á metsölubókunum Þar sem djöflaeyjan rís og Gulleyjan. Gerð var kvikmynd út frá þeim árið 1996 sem sló í gegn. Djöfleyjan fjallar um Badda og stórfjölskyldu hans sem býr í Reykjavík eftir stríð. Þar takast á fátækt, erfið fjölskyldutengsl, draumar og lífsbarátta í samfélagi sem er að taka miklum breytingum. Leikritið er bæði dramatískt og stútfullt af húmor.
Aðspurð að því af hverju þetta verk hafi orðið fyrir valinu segja Daníel Aron og Stefanía Maren, nemendur skólans, að Stefanía hafi spurt pabba sinn hvaða leikrit hann langaði að sjá og Djöflaeyjan hafi verið svarið. „Síðan horfðum við á myndina með nokkrum vinum okkar uppi á vist og urðum við bæði bara ótrúlega spennt fyrir þeirri hugmynd,“ segja Daníel og Stefanía í samtali við Dfs.is.

Nemendur leikstýra verkinu sjálfir ásamt Erlu Dan Jónsdóttur. 20 ungmenni taka þátt í leikritinu og 17 vinna á bakvið tjöldin. Einnig hjálpa Pálmi Hilmarsson (húsbóndi), Erla Þorsteinsdóttir (húsfreyja) og Andrés Pálmason (vistarvörður) mikið til með sviðsmyndina.
Æfingaferlið hefur gengið mjög vel. „Við erum svo ótrúlega stolt af öllum sem eru búin að vera með okkur í þessu ferli,“ segja Daníel og Stefanía. Ferlið byrjaði í október þegar áheyrnarprufur voru haldnar og æfingar byrjuðu í janúar. Daníel og Stefanía segja að það skemmtilegasta við að taka þátt í svona verkefni sé að vinna með skemmtilegum krökkum og fá reynslu í bankann.
„Stemningin er rosaleg, allir að ofpeppast,“ segja Daníel og Stefanía þegar þau eru spurð að því hvernig stemningin sé fyrir frumsýningu. Þau segja að fólk megi búast við því að ferðast aftur í tímann á sýningunni og muni upplifa hlátur, sorg, gleði og góðgæti.

Sýningarnar verða í Aratungu í Reykholti og verða fjórar talsins. Frumsýning er fimmtudaginn 20. mars klukkan 20:00. Næstu sýningar eru eftirfarandi:
Föstudagur 21. mars kl. 16:00
Föstudagur 21. mars kl. 20:00
Laugardagur 22. mars kl. 20:00
Miðaverð er 3.500 kr. en frítt fyrir 12 ára og yngri. Miðasala fer fram á staðnum og í gegnum netfangið ml.leikfelag@gmail.com.