Aðalfundur Hamars var haldinn á Hótel Örk 13. mars sl. þar sem verðlaun voru veitt fyrir íþróttamenn deilda og íþróttamaður Hamars 2024 var valinn.
Fimm einstaklingar fengu verðlaun fyrir góðan árangur í sinni grein.
Blakmaður ársins var Guðmundur Vignir Sigurðsson
Badmintonkona ársins var Rakel Rós Guðmundsdóttir
Körfuboltamaður ársins var Lúkas Aron Stefánsson
Knattspyrnumaður ársins var Markús Andri Danielsson Martin
Lyftingakona ársins var Anna Guðrún Halldórsdóttir

Það var Anna Guðrún sem var svo kosin íþróttamaður Hamars. Hún hefur sett fjölda Íslandsmeta, Evrópumeta og heimsmeta í sínum aldursflokki í ólympískum lyftingum en hún er núverandi Evrópu- og heimsmethafi í flokki 55-59 ára í 87 og +87 kg flokki auk þess að vera Íslandsmethafi í sömu flokkum. Hún á í dag þrjú heimsmet, þrjú Evrópumet og hefur sett 195 Íslandsmet.
Á fundinum var Guðríður Aadnegard sæmd Gullmerki Hamars. Guðríður hefur í gegnum líf sitt unnið ötullega að íþróttum barna, unglinga og fullorðinna. Hún var formaður Hamars frá árinu 2002 til ársins 2011 og hefur síðan verið formaður HSK. „Hamar hefur átt því láni að fagna að hafa haft Guðríði öll þessi ár innan sinna raða og óhætt að segja að allir þeir sem hafa komið að starfinu með henni séu henni þakklátir. Hamar óskar Guðríði innilega til hamingju með gullmerkið og þakkar fyrir hennar framlag í þágu íþróttanna og Hamars,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Ljósmynd: Gunnar Biering Agnarsson.