Útivistarskógar eru víða á Íslandi en tiltölulega litlir samanborið við þá erlendu, enda ræður hnattstaða og veðurfar í þeim efnum. Nokkrir myndarlegir útivistarskógar finnast þó á láglendi s.s. Bæjarstaðarskógur, Húsafellsskógur, Þjórsárdalsskógur, Skorradalsskógur, Kjarnaskógur, Þingvallaskógur og Hekluskógur auk margra annarra skóga sem hafa verið ræktaðir upp af einstaklingum, skógræktar- eða sveitarfélögum. Allir þessir skógar njóta mikilla vinsælda fyrir útiveru og sums staðar fyrir sumarbústaði.
Í Ölfusi er átak í ræktun útivistarskóga nærri Þorlákshöfn með virkri þátttöku ýmissra félagssamtaka. Nágrenni bæjarfélagsins er nokkuð berangurslegt í dag, en skógarsvæðið og stækkun þess mun verða yndi næstu kynslóða þegar fram líða stundir. Garðyrkjuskólinn að Reykjum var áður fyrr með skógrækt sem hluta af verklegu námi garðyrkjumanna þar. Byrjað var á þessari ræktun í skólastjórnartíð Unnsteins Ólafssonar, en jókst mikið þegar Grétar Unnsteins tók við skólastjórakeflinu. Trjágróðurinn í hlíðum Reykjafjalls er árangur þessa. Þegar horft er af Kambabrún til austurs sést þessi skógur vel, en hann teygir sig líka langt til austurs meðfram Reykjafjalli. Reykjatorfan, sem svo var kölluð, var keypt fyrir tilstuðlan Jónasar frá Hriflu á sínum tíma og er enn í höndum Garðyrkjuskólans. Því miður hefur skógræktinni lítið eða ekkert verið sinnt síðan Grétar lét af störfum, en nóg er af landi til slíks. Svæðið er einstakt því jarðhiti er í landinu og hverir og hveragufa er milli trjánna en slíkt er hvergi annars staðar að finna á Íslandi. Skógræktarfélag Árnessýslu er með ræktun trjáa til dreifingar fyrir nytjaskóga, útivistarskóga og skrúðgarða, bæði fyrir einstaklinga eða félög.
Í Hveragerði, upphafsstað garðyrkju í landinu, fengu eldri börn í barnaskólanum fyrir 50-70 árum það hlutverk að gróðursetja tré undir Hamarinn við skólaslit að vori. Aðstæður voru frábærar, Hamarinn skýldi fyrir norðanáttinni og hitnaði í sólinni og endurkastaði hitanum til trjánna. Skógræktarfélag Hveragerðis hélt síðan áfram að gróðursetja þar og nú á síðari árum neðst í Kömbunum ofan við Hamarinn. Þar er að finna stórt trjáræktarútivistarsvæði fyrir almenning í framtíðinni. Fossflötin í Hveragerði er í dag skrúðgarður Hvergerðinga en framtíðarskrúðgarður Hvergerðinga eru bakkar Hverár. Þar þarf nauðsynlega að hefjast handa við að skipuleggja skrúðgarð sem fyrst, því það tekur 25-50 ár að rækta hann. Byrja mætti á því að semja við Garðyrkjuskólann um skrúðgarðasamkeppni á útivistarsvæðinu og veita verðlaun fyrir bestu tillöguna. Þessi samkeppni gæti verið hugsuð sem hluti af námi verðandi skrúðgarðafræðinga og mætti teygja sig í ársvæði í landi skólans, því Hveragerði og Ölfus munu eflaust sameinast aftur í náinni framtíð.
Á Íslandi eru óteljandi svæði þar sem unnt væri að rækta útivistarskóga. Þeir þurfa ekki að vera stórir og þeir ættu ekki að taka yfir ræktarland, það er fyrir skógarbændur. Útivistarskógar falla vel að grófu og hallandi óræktanlegu landslagi. Trjágróður dregur úr gróðurhúsaáhrifum í landinu, eykur dýralíf og eru á sama tíma frábær skjólbelti.
Björn Jónsson, fyrrum skólastjóri í Hagaskóla í Reykjavík, vann mjög merkilegt skógræktarstarf að Sólheimum í landbroti. Hann sýndi fram á með tilraunum sínum að unnt væri að rækta tré nánast við ömurleg vaxtarskilyrði. Hann hafði aðra sýn á möguleikum trjáræktar á sínum tíma en skógfræðingar almennt höfðu hér á landi. Hann bætti jarðveginn og gróðursetninguna með miklum árangri, og gróðursetti með það markmið að ekki þyrfti að grisja skóginn síðar. Skógrækt hans er eða gæti án efa verið fyrirmynd annarra.
Heyrst hafa raddir um að á Íslandi eigi aðeins að rækta „íslensk” tré, væntanleg tré sem eru „fædd og uppalin” á Íslandi frá landnámstíð. Íslenska birkitréð, birkirunninn, er kannski eina tegundin sem uppfyllt gæti þessa kröfu. Margar fallegar trjátegundir hafa verið fluttar inn til að kanna trjáræktunarmöguleika hér á landi, bæði til gleði og nytja. Árangurinn hefur verið misjafn eftir tegundum og aðstæðum, en oft góður. Í hnotskurn ætti að rækta og „ættleiða“ þær tegundir sem þrífast í íslenskum jarðvegi og við íslenskt veðurfar.
Róbert Pétursson.