7.9 C
Selfoss

Valgerður Hjaltested með brons á EM í bogfimi

Vinsælast

Sunnlendingurinn Valgerður Hjaltested vann bronsverðlaun í liðakeppni berboga kvenna á Evrópumeistaramótinu innandyra sem fram fór dagana 17.-23. febrúar sl. í Samsun í Tyrklandi. Verðlaunin eru þau fyrstu sem hún vinnur á EM í meistaraflokki.

Í liði með henni voru Astrid Daxböck og Guðbjörg Reynisdóttir. Þær léku um bronsið á móti heimaliði Tyrkja í mjög spennandi leik. Leikurinn byrjaði 4-0 fyrir Íslandi en Tyrkir náðu að jafna leikinn í 4-4 og endaði leikurinn í bráðabana.

Bráðabaninn endaði líka í jafntefli 21-21 og því þurfti að mæla hvort liðið ætti örina sem væri nær miðju til þess að ákvarða sigurvegara leiksins. Það getur ekki verið jafnari leikur en það. Þar sem íslensku stelpurnar voru með örina sem var næst miðju í jöfnum bráðabana þá sigruðu þær og íslenska liðið tók því bronsið á EM í berboga kvenna.

Valgerður keppti einnig í sveigboga. Í liðakeppni sveigboga var liðið hennar slegið út í 8 manna úrslitum af Moldóvu 5-1 og endaði í 5. sæti.

Ljósmynd: Archery.is.

Í einstaklingskeppni endaði Valgerður í 9. sæti í berboga eftir að vera slegin út í 16 manna úrslitum af Giulia Mantilli frá Ítalíu. Í sveigboga einstaklingskeppni var hún slegin út af Elisabeth Straka frá Austurríki í 32 manna úrslitum.

Valgerður segist í samtali við Archery.is vera mjög ánægð með bronsverðlaunin með berbogaliðinu. Hún leggur núna áherslu á að verða betri í sveigboga.

Þetta eru fyrstu verðlaunin sem Ísland vinnur á EM í berboga í meistaraflokki.

Nýjar fréttir