Umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi er víðfeðmasta lögregluumdæmi landsins og þar eru starfræktar fimm starfsstöðvar; á Selfossi, Hvolsvelli, Vík í Mýrdal, Kirkjubæjarklaustri og á Höfn í Hornafirði. Í Vík hefur lögreglan haft starfsaðstöðu í tveimur skrifstofurýmum í húsnæði sýslumannsins á Suðurlandi við Ránarbraut 1.
Nú hefur jarðhæð hússins að Ránarbraut, sem áður hýsti Arion banka, verið gerð upp og þar hefur nú verið byggð nútímaleg lögreglustöð sem mun þjóna starfseminni.
„Ný lögreglustöð í Vík í Mýrdal er mikilvægur liður í því að efla starfsemina á miðsvæði embættisins. Samfélagið í Vík og nærsveitum hefur farið ört stækkandi, mikill fjöldi ferðamanna fer þar í gegn og við verðum að vera við öllu viðbúin þegar kemur að kröftugri náttúru á þessu svæði. Í nýrri lögreglustöð felast mikil sóknarfæri, þar er aðstaða fyrir lögreglumenn til að dvelja þar en það mun auðvelda okkur að tryggja mönnun á svæðinu. Þá mun fundaraðstaða og afgreiðsla gera okkur kleift að nýta stöðina fyrir fjölbreyttari verkefni en okkur hefur gefist kostur á hingað til.“ segir Grímur Hergeirsson, lögreglustjóri á Suðurlandi.
Nýlega var bætt við stöðu aðalvarðstjóra í Vík. Sú ráðstöfun leiðir m.a. til bættrar þjónustu við almenning en fastur opnunartími afgreiðslu verður mánudaga til miðvikudaga frá 09:00 – 15:00. Á öðrum tímum verður áfram hægt að nálgast vaktahafandi lögreglu á svæðinu.
Formleg opnun nýrrar lögreglustöðvar í Vík í Mýrdal verður þriðjudaginn 25. febrúar nk. klukkan 14:00–16:00. Á þeim tíma verður lögreglustöðin opin fyrir gesti og gangandi og heitt kaffi á könnunni.