6.1 C
Selfoss

Kennarar ganga út á Suðurlandi

Vinsælast

Kennarar í öllum grunnskólum á Selfossi og á Eyrabakka og Stokkseyri gengu út í hádeginu eftir að Samband íslenskra sveitarfélaga hafnaði klukkan 11:59 innanhússtillögu ríkissáttasemjara í deilu kennara við hið opinbera.

Páll Sveinsson skólastjóri Vallaskóla segir kennara vera í áfalli og treysti sér ekki til að halda úti kennslu í dag. „Við þurftum að senda nemendur í 5. til 10. bekk heim og við erum að óska eftir því að foreldrar barna í 1. til 4. bekk komi og sæki börnin sín. Við getum ekki brugðist öðruvísi við með svona stuttum fyrirvara. Bara algjört neyðarástand.“

„Við ætluðum ekki að trúa því þegar þetta gerðist í hádeginu,“ segir Páll um ákvörðun Sambands íslenskra sveitarfélaga að hafna innanhústillögunni. Hann segist ekkert vita um hvernig framhaldið verði en að þetta sé mikill skellur.

„Það er búið að ganga frá öllu samkvæmt okkar upplýsingum nema það standa þessi nokkur atriði í stjórn sveitarfélaganna,“ tekur Páll fram og segir algjöran trúnaðarbrest vera á milli Kennarasambandsins á landinu og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

„Nú er boltinn hjá þeim af því ábyrgðin er algjörlega þar og bara gangi þeim vel að koma með einhverjar tillögur sem geta brúað þetta gríðarlega vantraust, og ekki bara gjá heldur haf, sem er orðið á milli viðsemjenda núna eftir þetta. Algjör misgjörningur. Ábyrgðin er fullkomlega hjá sveitarfélögunum.“

„Kennarar voru búnir að samþykkja þetta. Ég sendi út bréf núna á bæjarfulltrúa þar sem ég óska eftir því að þeir gangi fram fyrir skjöldu og taki ábyrgð á stöðunni og leggi sitt á vogarskálarnar að aðstoða við að leysa þessa deilu strax,“ segir Páll að lokum.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Nýjar fréttir