1.1 C
Selfoss

Eina grænkeraostagerðin á Íslandi í Hveragerði

Vinsælast

Livefood er fyrirtæki sem hjónin Fjóla Einarsdóttir og Erlendur Eiríksson stofnuðu árið 2019 ásamt hjónunum Ingólfi Þór Tómassyni og Ernu Rán Arndísardóttur. Fyrirtækið er eina grænkeraostagerðin á Íslandi. Það leggur áherslu á sjálfbærni og allar vélar sem notaðar eru við framleiðslu eru keyptar notaðar. Fjóla settist niður með blaðamanni og fór yfir fyrirtækið og ferlið við stofnun þess.

Sjá sjálf um alla framleiðslu

Livefood sérhæfir sig í grænkeraostagerð og fer framleiðslan fram í Hveragerði. Ostarnir bera nafnið Ástar sem Fjóla segir vera skrípaleikur að orðum. Eins og er er fyrirtækið ekki með launaða starfsmenn þar sem þau hafa ekki fengið styrk til þess að koma þeim almennilega af stað. Hjónin sjá sjálf um allt tengt framleiðslunni. Erlendur, eða Elli eins og hann er kallaður, og Ingólfur sjá um að búa til ástana og Fjóla og Erna sjá oft um innpökkun með þeim. Þau hafa líka fengið aðstoð frá ýmsum aðilum. Börnin hjálpa stundum til og fyrir jólin fengu þau stráka úr U20 landsliðinu í körfubolta til að hjálpa sér að pakka. Annars er Elli búinn að vinna alla daga launalaust við ostagerðina síðan 2022.

Gerðist vegan á einni nóttu

Hugmyndin að fyrirtækinu kom þegar Elli ákvað að gerast grænkeri árið 2018. „Hann vann þá á Skyrgerðinni sem yfirkokkur. Það var steikhús þá. Það var verið að grilla kótelettur alla daga og hann var bara orðinn spikfeitur og sagði: „Þetta gengur ekki, ég verð að gera eitthvað. Heyrðu, ég ætla bara að gerast vegan.“ Hann gerðist vegan á einni nóttu 2018 og það var ekkert mál fyrir hann, nema ostarnir,“ segir Fjóla. Hann sagði erlenda innflutta veganosta bragðast eins og pappír og sagðist örugglega geta búið til betri osta sjálfur. „Svo fer hann að leita að námskeiðum og fer á ostagerðarnámskeið í Berlín og er búinn að fara á röð námskeiða víðsvegar um heiminn eftir það,“ segir Fjóla.

Svo kom hann heim og sagði: „Ég fór á námskeið til þess að búa til osta handa mér en mig langar til að Ísland og allur heimurinn fái osta sem ég bý til.“ Við sóttum þá um í Uppbyggingarsjóð Suðurlands í hans nafni og fengum styrk. Það byrjaði í rauninni allt með því. Elli hafði þá ráðrúm til þess að þróa og byrja að hugsa. Svo var hann kominn aðeins lengra og vildi fara með þetta alla leið, finna húsnæði og svona. Svo fórum við í Klak-hraðalinn Startup Orkídea og þau eru búin að standa alveg við bakið á okkur síðan. Það var 2021.“

Fjóla og Elli eru samstíga
hjón í verkefnum lífsins.
Ljósmynd: Aðsend.

Mistök ofan á mistök ofan á mistök

Þau völdu húsnæðið sem þau eru í til þess að geta nýtt hveragufuna þar sem húsið er á jarðvarmasvæði. Svo tók við mikið hark að sögn Fjólu. „Þetta var bifvélaverkstæði eða eitthvað álíka. Við þurftum að epoxa allt gólfið, mála alla veggina, setja þriggja fasa rafmagn, tengja inn nýjar greinar og pípuleggja og ég veit ekki hvað við þurftum ekki að gera. Það tók eitt og hálft ár eða meira.“ Það er ekki fyrr en 2022, í október, sem þau fengu leyfi frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands fyrir grænkeraostagerð.

„Þegar við erum komin með leyfið byrjum við alvöru þróunarvinnu. Í svona þróunarvinnu eru mistök ofan á mistök ofan á mistök. Við höldum áfram þangað til að við náum réttri samsetningu. Það þarf að fara saman bragð og áferð. Þú þarft að upplifa að þetta sé ostur, ekki bara að þetta sé gott á bragðið,“ segir Fjóla og nefnir að grunnhráefnið sem þau noti í ástana sé kartöflusterkja.

Fyrstu ástarnir sem þau gerðu voru kryddástar. „Við eigum átta tegundir af kryddástunum og það er einfalt að gera nýja tegund þegar grunnurinn er góður. Það er sami grunnur og svo er mismunandi hvað er í hverjum.“ Þau eru einnig með pizzaost, rjómaost, brauðost og Vetaást sem líkist Fetaosti. Fjóla segir að eitt það erfiðasta við veganost sé bræðanleikinn en að þeim hafi tekist vel að þróa ástana þannig að þeir bráðni vel.

Nýjasta varan þeirra er Veddar Cheddar sem er brauðsostur til að sneiða og leggja þau áherslu á að varan sé lífræn. „Liturinn er úr papriku og íslenskum gulrótum. Elli blandar litarefnin náttúrulega. Hjá okkur má ekki vera allt stútfullt af einhverjum e-efnum.“

Fara vonandi í Hagkaup fljótlega

Grænkeraostarnir eru komnir um allt land í gegnum Garra. Svo eru þeir í nokkrum vel völdum litlum búðum.

„Við erum í Made in Iceland á Selfossi, Sólskinsbúðinni á Flúðum, Völlum í Svarfaðardal og Nándinni í Hafnarfirði þar sem við höfum verið að selja allar tegundir og svo erum við á mörkuðum að selja. Við erum líka með netverslun og seljum til einstaklinga þaðan,“ segir Fjóla.

Hún segir að stóru búðirnar séu allar að bíða eftir þeim.

„Þau eru að bíða eftir því að við höfum framleiðslugetuna. Hagar eru búin að bíða eftir okkur í tvö til þrjú ár. Við fengum styrk frá þeim sem heitir Uppsprettan og vorum ein af fyrstu teymunum sem fengum hann. Við erum með samning við þau um að fá aðstoð við að koma þessu í búðirnar þeirra en við höfum ekki haft framleiðslugetuna. Við stefnum þó að því að ástarnir fari fljótlega í sölu í Hagkaup.“

Ástæðan fyrir því að fyrirtækið hóf að selja ástana til Garra er að einingarnar eru stærri og vinnan einfaldari við pökkun.

„Pizzaosturinn er í kílóapokum og við mokum honum í poka og í kassa og til Garra. Fyrirtækin kaupa svo frá þeim. Það er auðveldara þegar við erum með svona fáar hendur að gera í stóru magni en í litlu magni er erfiðara. Við látum hreina kremostinn til þeirra í 2 kg umbúðum. Það tekur mun lengri tíma að pakka og merkja litlu einingarnar,“ segir Fjóla.

Treysta vörunni á alheimsmarkaði

Fjóla segir að varan sem þau eru með sé algjört gull. Hún nefnir að hún sé rosalega góð og mjög vinsæl.

„Við sjáum það bara í gegnum þessa miklu sölu sem við erum að selja í gegnum Garra. Við erum að fara með það mikið af ostum þar og komin með það marga aðila sem eru að kaupa þaðan. Við erum komin um allt Ísland og svo förum við á smásölumarkaðinn, byrjum bara í litlum búðum.“

Hún segir að það sé í vinnslu að tryggja nóg fjármagn til þess að stækka fyrirtækið og framleiðslugetuna.

„Þá náum við að fara í alla smásölu hérna á Íslandi. Þegar við erum komin þangað þá náum við líka að stækka hraðar og byrja þá að koma okkur í Norðurlöndin. Við höfum leyft fólki frá Belgíu, Ástralíu og Bretlandi að smakka vörurnar okkar. Þau komu í heimsókn til okkar, þar með talið veganostagerð í Belgíu, og voru rosalega hrifin. Þetta er það góð vara að við treystum henni á alheimsmarkaði og frá upphafi vorum við búin að ákveða það.“

Hægt er að nota ástana á ýmsa vegu.

Stefna á mygluostagerð

Að mati Fjólu eru þau komin á það stig núna að geta óskað eftir miklu fjármagni af því varan sé tilbúin. „Togarinn er kominn að landi og við erum bara að henda landfestunum.“

Að lokum segir Fjóla að þau ætli að halda áfram að þróa vörur.

„Við eigum eftir mygluostana, blámyglu- og hvítmygluostana. Við erum ekki búin að þróa þá og það tekur um sex vikur að gera hvern. Þá þurfum við að hafa eitthvað rými sem þeir geta myglað í þar sem myglan er stöðug. Þegar maður er að selja mygluosta þurfa þeir alltaf að vera eins. Það er á döfinni hjá Livefood að það komi mygluostar en ekki alveg strax.“

Nýjar fréttir