1.7 C
Selfoss

Glæpsamlegur gamanleikur á Selfossi

Vinsælast

Leikfélag Selfoss er á fullu að æfa verkið Átta konur í Litla leikhúsinu við Sigtún. Verkið er glæpsamlegur gamanleikur sem fjallar um sjö konur sem tengjast fjölskylduböndum og sú áttunda bætist svo við. Þær fara í bústað árið 1963 á Þingvöllum og ætla að eyða nokkrum dögum saman. Þarna er eiginkona, dætur, mágkona, tengdamamma, ráðskona og þjónustustúlka. Einn karlmaður er í sýningunni.

Djúsinn er í kvenhlutverkunum

Í sýningunni eru allavega sjö lög sem gætu endað í átta að sögn Rakelar Ýrar Stefánsdóttur, leikstjóra verksins. Hún segir leikritið vera einhvers konar blöndu af Chekhov og Agatha Christie.

Aðspurð að því hvernig hafi gengið að fá átta konur til að taka þátt í verkinu segir hún það hafa gengið mjög vel. „Við vorum með workshop sem gekk ótrúlega vel. Það komu mjög margir. Við fengum líka fullt af nýjum andlitum svo komu líka nokkrir sem hafa ekki verið að leika í nokkur ár. Svo endaði leikhópurinn þannig að þetta er bara frábært einvalalið leikara hérna. Ég er heppin með leikhóp.“

Hún segir að slegist hafi verið um eina karlhlutverk verksins. „Það voru líka einhverjir karlmenn sem slógust um kvenhlutverkin. Ég var alveg opin fyrir því en þetta endaði svona að það er bara einn karlmaður sem er í verkinu. En verkið fjallar um þessar konur. Þar er allur djúsinn og karaktersköpunin og allt saman.“

Uppáhaldslög Eddu Heiðrúnar í sýningunni

Rakel segist vera hissa að verkið hafi ekki verið sett upp oftar og segist hafa rekist á það fyrir tilviljun.

„Það er margt skemmtilegt við þýðinguna sem við eigum eftir Sævar Sigurgeirsson. Þetta er skrifað 1960 og frumsýnt þá í París af Robert Thomas frönsku leikskáldi. Hann fékk verðlaun fyrir og var það mjög vinsælt. Þar er það ekki með lögum og söngvum. Þannig að upprunalega leikverkið er meira gamanleikur en ekki tónlist.“

Árið 2002 var gerð bíómynd úr leikritinu í Frakklandi sem varð mjög vinsæl.

„Hún var með ótrúlega flottum og frægum leikkonum sem maður kannast við og þá voru þessi lög sett inn. Það eru frönsk lög og myndin á frönsku. Svo er Edda Heiðrún Bachman að setja þetta upp í Þjóðleikhúsinu leikárið 2005/2006 og hún og Sævar vinna lög og texta í íslenskri þýðingu. Hún tekur þá bara ákvörðun um að velja lög sem voru uppáhaldslögin hennar sem hún gæti tengt við þetta tímabil. Það er ótrúlega skemmtilegt að við séum komin með þau lög frá Eddu. Svo erum við aðeins að leyfa okkur að finna tónlist frá þessum tíma, 60s, og setja það inn í verkið og leyfa því að njóta sín.“

Rakel segir það viðeigandi að setja upp leikrit sem gerist á þessum tíma. „Það eru einhvern veginn allir með þessa nostalgíu núna, þessi 60s tími.“

Það gengur furðuvel að hennar sögn að finna leikmuni og búninga fyrir sýninguna.

„Það er vissulega krefjandi. Sérstaklega fyrir mig sem leikstjóra að ákveða hvaða stíl ég ætti að nota af því það voru auðvitað nokkrir stílar í gangi og svo fór eftir því hvað fólk átti mikinn pening hvað þau voru að kaupa á heimilið. Við erum að reyna að nota eitthvað sem er fágað og flott í leikmyndina.“

Vön því að vera í öllu

Átta konur er fyrsta leikritið í fullri lengd sem Rakel leikstýrir en hefur hún samt reynslu af faginu.

„Ég hef unnið mikið með börnum og unglingum. Ég leikstýrði til dæmis styttri útgáfu af Annie á Blönduósi, unglingadeildinni þar. Þar var rosa flott árshátíð í félagsheimilinu sem er með geggjað svið. Svo hef ég verið að vinna með mikið af tónlistarfólki, hef leikstýrt ýmis konar tónlistarmyndböndum og jafnvel verið sjálf á myndavélinni og gengið í allskonar störf. Þannig að ég er vön því að vera allt í öllu.“

Rakel er menntuð leikkona frá Listaháskóla Íslands og hefur hingað til meira verið að leika en leikstýra.

Ég hef fyrst og fremst verið að vinna í Borgarleikhúsinu að leika þar síðustu fjögur ár. Ég hef verið í ýmsum verkum; Sölumaður deyr, Níu líf, Fíasól, Emil í Kattholti og Þétting hryggðar til dæmis. Ég er búin að leika á öllum sviðum í Borgarleikhúsinu, það er gaman. En fyrst og fremstá Stóra sviðinu í einhverjum söngleikjum og svoleiðis. Það er alveg gífuleg reynsla sem maður fær þaðan og nær að nýta sér í þetta.“

Byrjaði í Leikfélagi Selfoss

Rakel er ekki ný í Leikfélagi Selfoss. Hún byrjaði að leika þar sem krakki.

„Það er ótrúlega skemmtilegt af því ég kem hérna inn sem krakki 10 eða 11 ára af því að foreldrar mínir voru að leika hér. Þau byrjuðu að taka þátt í leikfélaginu sem var í Flóahreppi og voru að leika þar. Svo stóð ég hérna fyrir tveimur dögum með þeim sem eru að smíða leikmyndina og þeir voru að segja söguna þegar þeir fengu foreldra mína til þess að taka þátt í Gaukshreiðrinu sem hefur verið 2001 eða 2022 hér í leikfélaginu. Það er ástæðan fyrir því að við erum hér og ég er komin hingað 20 og eitthvað árum síðar að leikstýra. Það er skemmtilegt.“

Ljósmynd: DFS.is/EHJ.

Frumsýnir og fer svo til Danmerkur

Æfingar á Átta konur hafa gengið mjög vel en segir Rakel að ferlið geti verið púsluspil.

Oft byrjar maður í kósýheitum með leikhópnum bara að lesa og fara aðeins út á gólf. Svo þarf maður að púsla öllum hinum deildunum. Það þurfa allir pláss. Leikmyndin þarf pláss og hár og smink. Maður þarf að bera virðingu fyrir því.“

Ferlið á verkinu byrjaði í lok nóvember með leiksmiðjum og hlutverkaskipan. Síðan hefur hópurinn verið á fullu síðan 4. janúar að koma verkinu saman. Frumsýning er 14. febrúar.

Næsta verkefni hjá Rakel er söngskóli í Danmörku. Skólinn heitir Complete Vocal Technique og er þriggja mánaða nám.

„Þannig að ég ætla bara að frumsýna og svo fer ég. Það er mjög spennandi. Það er næsta reynsla sem ég ætla að sækja mér,“ segir Rakel að lokum.

Nýjar fréttir