-3.1 C
Selfoss

Segja engar forsendur fyrir því að seinka framkvæmdum við Hvammsvirkjun

Vinsælast

Oddvitar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra segja engar forsendur fyrir því að hægja á eða seinka þeim undirbúningsframkvæmdum Hvammsvirkjunar sem komnar eru af stað og eiga að standa yfir á þessu ári.

Héraðsdómur Reykjavíkur ógilti virkjunarleyfi Landsvirkjunar vegna Hvammsvirkjunar í síðustu viku.

Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Rangárþings ytra og Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sendu frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að í ljósi þess að engar framkvæmdir séu fyrirhugaðar á árinu 2025 í árfarvegi Þjórsár sé nægur tími fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að leggja fram boðaðar breytingar á lögum um vatnamál á komandi þingi. Alþingi geti þá sömuleiðis tryggt það að heimilt sé að byggja virkjanir sem eru samþykktar í nýtingarflokki rammaáætlunar.

„Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Rangárþing ytra veittu framkvæmdaleyfi til byggingar Hvammsvirkjunar í október 2024. Framkvæmdaleyfið er í fullu gildi og í því voru ítarleg skilyrði sett fyrir framkvæmdinni,“ segir í tilkynningunni.

Landsvirkjun muni þurfa að uppfylla fjölmörg skilyrði sem koma fram í greinagerð sem liggur til grundvallar framkvæmdaleyfinu áður en heimild er veitt til þess að hefja framkvæmdir í árfarvegi Þjórsár og breyta vatnshlotinu.

„Engar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í árfarvegi Þjórsár á árinu 2025 og því engar framkvæmdir fyrirhugaðar á þessu ári sem hafa áhrif á vatnshlot Þjórsár,“ segja Haraldur og Eggert.

Nýjar fréttir