1.1 C
Selfoss

Árborg endurnýjar þjónustusamninga

Vinsælast

Mikið er um að vera þessa dagana í undirskriftum þjónustusamninga í Sveitarfélaginu Árborg. Sveitarfélagið og Umf. Stokkseyri skrifuðu á dögunum undir endurnýjun á þjónustusamningi sínum.

Það voru Bragi Bjarnason bæjarstjóri Árborgar og Ingi Þór Jónsson formaður Umf. Stokkseyri sem skrifuðu undir samninginn sem gildir út árið 2025.

Ungmennafélagið fær greiddan styrk til reksturs þess auk þess sem félagið tekur að sér hin ýmsu verkefni. Má þar nefna rekstur íþróttahússins á Stokkseyri auk umsjónar með knattspyrnuvöllunum á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þá sér félagið áfram um Bryggjuhátíðina og ýmis verkefni í kringum jól og áramót.

Sveitarfélagið gerði einnig nýjan þjónustusamning við Hestamannafélagið Sleipni á dögunum. Bragi Bjarnason og Berglind Sveinsdóttir formaður Sleipnis skrifuðu undir samninginn sem gildir út árið 2025.

Um er að ræða þjónustusamning sem felur í sér styrk til reksturs félagsins og framlags til barna- og unglingastarfs. Einnig var gerður samningur um stuðning til reksturs félagshesthúss til næstu þriggja ára. Með verkefninu er börnum og unglingum sem eru að stíga sín fyrstu skref í hestaíþróttum gefinn kostur á að fá aðgang að hesti og aðstöðu og þau studd áfram í starfinu.

Bragi Bjarnason og Berglind Sveinsdóttir formaður Sleipnis.
Ljósmynd: arborg.is.

Nýjar fréttir