Hvergerðingurinn Atli Þór Jónasson hefur skrifað undir samning hjá Knattspyrnufélagi Víkings í Reykjavík. Hann fer þangað frá HK þar sem hann spilaði stórt hlutverk á síðasta tímabili í Bestu deildinni. Hann ólst upp hjá Hamri í Hveragerði og spilaði þar marga leiki með meistaraflokki sem lykilleikmaður.
Víkingur hefur verið eitt af betri liðum efstu deildar síðustu ár. Þeir urðu Íslandsmeistarar árin 2021 og 2023 ásamt því að hafa nokkrum sinnum orðið bikarmeistarar. Þeir voru í öðru sæti í Bestu deild karla 2024 og komust í úrslit bikarkeppninnar. Þeir hafa einnig náð góðum árangri í Evrópu, þar sem þeir komust í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu.