-1.1 C
Selfoss

Hveragerðisbær skorar á Veitur

Vinsælast

Bæjarráð Hveragerðisbæjar skorar á Orkuveitu Reykjavíkur (Veitur) að tryggja Hvergerðingum, fyrirtækjum og stofnunum í bænum afhendingaröryggi á heitu vatni.

Kemur þetta fram í fundargerð frá síðasta fundi bæjarráðs.

Síðustu ár yfir vetrarmánuðina og núna frá því í byrjun desember 2024 hefur verið viðvarandi skortur á heitu vatni í sveitarfélaginu, nú vegna bilunar í einni borholu. Í upphaflegri tilkynningu frá Veitum kom fram að viðgerðin tæki einhverja daga hið minnsta. Nú meira en mánuði síðar ber enn við skorti á heitu vatni og mun lægra hitastigi á heitu vatni en fólk á að venjast. Samkvæmt tölvupósti sem barst íbúum Hveragerðisbæjar 8. janúar verða enn frekari tafir á viðgerð þar sem panta þurfti nýjan mótor sem ekki er vitað hvenær kemur til landsins. Þrátt fyrir þetta eru íbúar, fyrirtæki og stofnanir að greiða fullt gjald, og jafnvel meira en það, þar sem aukið rennsli af vatni þarf með lægra hitastigi á heitu vatni til að halda húsum heitum.
Þá hefur sundlaugin Laugaskarði verið lokuð það sem af er þessu nýja ári með tilheyrandi tekjutapi og kostnaði fyrir sveitarfélagið, enda eru þar starfsmenn á launum en engir gestir nema í líkamsræktinni. 
Í fundargerðinni segir einnig að það sé nokkuð víst að ef slíkt ástand kæmi upp í Reykjavík, líkt og varað hefur í Hveragerði yrði gengið fljótt til verks. Þolinmæði Hvergerðinga er komin að þolmörkum gagnvart þessu heitavatnsleysi síðustu ár.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við Veitur um fullnægjandi lausnir á öruggri afhendingu á heitu vatni til Hveragerðinga og að komið verði til móts við Hvergerðinga um afsláttarkjör vegna óviðunandi hitastigs á afhentu vatni.

Í fréttum RÚV 9. janúar bentu Veitur á að íbúar fái meira heitt vatn þótt það sé ekki jafn heitt. Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, segir að á meðan þetta sé innan viðmiðunarmarka þá séu engin fordæmi fyrir því að veita afslátt svo lengi sem hitastig sé ekki undir 50 gráðum til langs tíma. Hvergerðingar eru mjög ósáttir við þessa ákvörðun Veitna.

Nýjar fréttir