Mikil kuldatíð hefur verið á landinu undanfarið og hefur fólk verið hvatt til þess að spara heita vatnið heima hjá sér. Í desember kom upp alvarleg bilun á borholu í Hveragerði með þeim afleiðingum að hitastigið á vatninu hjá hluta bæjarins hefur verið mun lægra en það á að vera.
Mikil óánægja hefur skapast meðal íbúa með þetta mál. Í þræði sem einstaklingur setti inn á Hvergerðingar, Facebook-hóp bæjarfélagsins, eru neikvæðar umræður um það að þurfa að borga fullt verð fyrir heita vatnið meðan á biluninni stendur. „Við erum búin að vera að borga fullt gjald fyrir 88 gráður heitt vatn en það eru bara að koma inn rúmar 55 gráður,” segir einn ósáttur íbúi í þræðinum. „Á einni viku höfum við safnað þeim sandi sem við höfum hreinsað úr síunni hjá okkur. Við þurfum að hreinsa síuna mörgum sinnum á dag, allt upp í 4x á klukkutíma. Á þessari viku erum við með 365 grömm af sandi úr síu sem er á stærð við matskeið,” segir annar íbúi.
Bilunin hafði líka áhrif á Sundlaugina í Laugaskarði og búið er að loka fyrir aðgang að lauginni og heitu pottunum.
Íbúar hafa óskað eftir viðbrögðum frá Veitum varðandi þetta mál. Svör fengust um bilunina sjálfa en engin svör fást við því af hverju borga þurfi fullt verð fyrir heita vatnið.
„Við höfum gripið til allra mögulegra ráðstafana til að bæta úr ástandinu, þar á meðal fá sendan búnað til landsins og bæta við varmaskipti, en því miður var bilunin alvarlegri en svo að það dygði til í yfirstandandi kuldakasti. Unnið er að lausn sem áætlað er að verði komin í gagnið um miðjan mánuðinn.
Veitur leggja áherslu á að laga bilunina sem varð í borholunni til að tryggja öllum íbúum nauðsynlega innviði og lífsgæði til framtíðar,“ segir í svari Veitna á síðunni Hvergerðingar.