Skötuveisla Rangárhallarinnar fer fram í annað sinn föstudagskvöldið 10. janúar kl. 19:30.
Skötuveislan er fjáröflunarviðburður fyrir Rangárhöllina. Í þetta skiptið er safnað fyrir hitaveitutengingu – sem verður bylting fyrir aðstöðuna, segir í tilkynningu frá forsvarsfólki Rangárhallarinnar.
Fólk er hvatt til þess að fjölmenna í íþróttahúsið á Hellu og eiga saman skemmtilega kvöldstund og í leiðinni styðja við uppbyggingu á aðstöðu fyrir hestamennsku.
Á matseðli verður kæst skata, saltfiskur, fiskréttur, hamsatólg, kartöflur og rófur. Eftirréttur er ábrystir með kanil.
Sunnlensk skemmtidagskrá verður af bestu gerð. Einnig verður happadrætti og eru vinningarnir í hæstu hæðum. Folatollar, gjafabréf og margt fleira.