-9.7 C
Selfoss

Hr. Eydís með nýja ábreiðu af lagi Billy Idol

Vinsælast

Hljómsveitin Hr. Eydís er búin að gera nýja ábreiðu af laginu Eyes Without a Face með Billy Idol.

Lagið kom út sem smáskífa í apríl 1984 og var af plötunni Rebel Yell sem hafði komið út í lok ársins 1983. Lagið var frábrugðið öðrum smellum Billy Idol, en það var ballaða. Reyndar var það samsuða af ýmsu fleiru, því í laginu eru bæði rokk- og rappkafli. Það var tikkað í nokkur box enda varð lagið mjög vinsælt.

Mikið var lagt í myndbandið, öllu var tjaldað til, bæði í reyk og eld. En svo mikill var hitinn og reykurinn að augnlinsur Billy Idol bráðnuðu í augunum á honum og þurfti hann í kjölfarið að leggjast inn á spítala.

„Ég var á Spáni síðastliðið haust og hafði með mér gítarinn. Var eitthvað að glamra og fór allt í einu að spila Eyes Without a Face og hugsaði með mér að við þyrftum að taka þetta gamla góða ´80s lag,“ segir Örlygur Smári, söngvari og gítarleikari Hr. Eydís í tilkynningu frá hljómsveitinni og bætir við „…mikið væri gott að komast í hitann á Spáni núna í öllum þessum kulda og snjó.“

Lagið og myndbandið má sjá hér að neðan.

Nýjar fréttir