-11 C
Selfoss

Vigdís tekur við stöðu markaðsstjóra Nettó

Vinsælast

Vigdís Guðjohnsen hefur tekið við stöðu markaðsstjóra Nettó. Vigdís hefur víðtæka þekkingu og yfir tíu ára reynslu af markaðsmálum, með sérstakri áherslu á stjórnunarhlutverk og markaðsstefnu. Þá hefur hún sérhæft sig í markaðssetningu samfélagsábyrgðar. Vigdís tekur við af Helgu Dís Jakobsdóttur sem hefur sinnt stöðu markaðsstjóra Nettó og mun taka við stöðu vöruflokkastjóra á innkaupa- og vörustýringarsviði Samkaupa að loknu fæðingarorlofi.

Vigdís kemur til Samkaupa frá flugfélaginu Play þar sem hún starfaði sem markaðsstjóri og bar ábyrgð á markaðs- og ímyndarmálum félagsins, uppbyggingu vörumerkisins í gríðarlega hröðum vexti og þróun og framkvæmd umfangsmikillar markaðsáætlunar á alþjóðavettvangi. Þar áður starfaði hún sem markaðsstjóri Skeljungs.

„Við erum virkilega ánægð að fá Vigdísi til starfa enda býr hún yfir gífurlega öflugri starfsreynslu og mikill sérfræðingur á sínu sviði. Við erum búin að vera í mikilli vinnu að styrkja Nettó á lágvörumarkaði ásamt ýmsum þáttum innan fyrirtækisins með það að markmiði að bjóða viðskiptavinum okkar upp á bestu mögulegu þjónustu og verð. Það eru spennandi tímar fram undan hjá Nettó og Samkaupum og ég er fullviss um að Vigdís mun hafa í nægu að snúast á næstu misserum,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs.

„Dagvörumarkaðurinn er spennandi geiri þar sem hlutir gerast hratt og það er alltaf nóg að gera, og í þannig umhverfi þrífst ég best. Á sama tíma er spennandi að fá þetta tækifæri að fá taka þátt í að móta markaðsmál Nettó sem er frábær verslun á verðmætri vegferð að verða samkeppnishæfari á markaði, og ég hlakka því til að ganga til liðs við öflugt fyrirtæki eins og Samkaup,“ segir Vigdís.  

Samkaup reka 60 verslanir víðs vegar um landið. Helstu verslanamerki Samkaupa eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin, Háskólabúðin, Iceland og Samkaup strax. Nettó opnaði nýverið nýja glæsilega verslun á Selfossi. Eru þá tvær Nettó verslanir þar ásamt Krambúðinni.

Nýjar fréttir