-11.6 C
Selfoss

Bjóða upp á sérhannað námskeið fyrir kennara

Vinsælast

Hjónin Eva Harðardóttir og Lárus Jónsson eru að fara af stað með nýtt fjarnámskeið sem er sérstaklega fyrir kennara. Þau voru saman í pottinum í Laugaskarði í Hveragerði þegar Lárus segir við Evu: „Eva, ég er að hugsa um að vera með þjálfunarnámskeið sem er sérstaklega hugsað fyrir kennara.“ Eva svaraði strax að hún ætlaði að vera með honum í því.

Eva segir í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni að þessi jólavitrun birtist þeim ekki upp úr þurru heldur kemur í kjölfar samræðna sem þau hjónin hafa átt undanfarið ár eða lengur um áskoranir og tækifæri í störfum kennara og þjálfara. Þetta er þeirra sameiginlegi reynsluheimur, en þau eru bæði kennarar. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að heilsa kennara fer almennt versnandi og að slæmt líkamlegt ástand s.s. skortur á hreyfingu, ójafnvægi í næringu og lítill svefn haldist í hendur við kulnun.

„Þetta eru svo sem engin geimvísindi en mér finnst alltaf áhugavert þegar rannsóknir sýna svart á hvítu hvernig hlutirnir taka á sig ákveðna mynd. Ég var t.d. í hálfgerðu sjokki þegar ég fór á ráðstefnu á vegum UNESCO í júní sl. í Finnlandi um framtíð kennara og kennaramenntunar. Þar var annar hver fyrirlesari að fjalla um heilsuleysi kennara. Í kjölfarið hef ég verið að velta fyrir mér hlutverki stefnumótunar og stjórnunar í þessum efnum líka,“ segir Eva í færslu sinni.

Eva talaði um að á síðasta menntaþingi hafi Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor á Menntavísindasviði HÍ, talað um að forsenda fyrir árangri og góðri líðan barna og ungmenna yrði að byggja á vellíðan kennara. „Við Lalli erum auðvitað sjálf kennarar og þekkjum vel hversu snúið það getur verið að huga að heilsunni á sama tíma og starfið verður sífellt flóknara.“

Úr varð að þau hjónin settust niður í jólafríinu og tóku allt það besta sem þau áttu í gullkistunum sínum og settu saman námskeið sem er sérsniðið fyrir kennara sem vilja styrkja sig í starfi – líkamlega, andlega og faglega. Í þeirra huga tengjast þessir þættir órjúfanlegum böndum.

„Eitt af því sem kennarar glíma við alla daga er ótrúleg pressa um árangur. Það hvað telst vera árangur eða best hverju sinni er hins vegar yfirleitt fyrir fram skilgreint af einhverjum öðrum en kennurum sjálfum. Oftast kemur hugmyndin um hvað er best í menntun frá stefnumótunaraðilum sem einblína á samkeppni og samanburð frekar en samvinnu og jafnvægi,“ segir Eva.

Hún segir heilsutengda orðræðu líka hafa verið á þessum nótum. „Samfélagsmiðlar ýta fólki út í sífellt óheilbrigðari og óraunverulegri samanburð og samkeppni við aðra, nú eða bara okkur sjálf þegar við erum spurð að því hvernig við getum orðið besta útgáfan af okkur sjálfum?“

Eva og Lárus vildu ögra þessari hugmynd um bestun í afmörkuðum skilningi og skoða frekar hvernig við getum látið okkur líða sem best í lífi, leik og starfi. Hvernig góð líkams- og næringarþjálfun, svefn og streitustjórnun undirbyggja sterkari fagvitund og farsæld í starfi. Hvernig sköpum við aðstæður þar sem við erum í essinu okkar?

„Við ætlum að byrja í janúar og erum núna í óðaönn að setja saman dúndurdagskrá þar sem líkams- og næringarþjálfuninni hans Lalla er fléttað saman við fræðslu og rannsóknir af sviði menntavísinda. Praktíski kennarinn í mér býr svo til verkefni sem nýtast öllum sem taka þátt í námskeiðinu áfram í eigin kennslu eða þjálfun,“ segir Eva að lokum.

Þau sem vilja taka þátt í námskeiðinu geta haft samband við Lárus Jónsson eða Evu Harðardóttur í einkaskilaboðum á Facebook eða í gegnum tölvupóst evahardar@gmail.com eða lallijons12@gmail.com.

Nýjar fréttir