Skötuát á Þorláksmessu er að margra mati ómissandi þáttur í aðdraganda jólanna. Siðurinn kemur upphaflega frá Vestfjörðum en færði sig seinna suður og er skatan nú borðuð í öllum landshlutum á Þorláksmessu.
Á Vísindavefnum má finna svarið við því af hverju skata er borðuð á Þorláksmessu.
Þar kemur fram að í kaþólskum sið hafi verið fastað fyrir jólin og átti þá ekki að borða mikið góðgæti og einna síst á Þorláksmessu Það átti að vera sem mestur munur á föstumat og jólakræsingum, auk þess sem ekki þótti við hæfi að borða kjöt á dánardegi heilags Þorláks. Aðalreglan var samt sú að borða lélegt fiskmeti á þessum degi, en misjafnt var hvað hentaði best á hverjum stað. Á Suðurlandi var sumstaðar soðinn horaðasti harðfiskurinn.
Á þessum tíma árs veiddist skatan bara á Vestfjarðamiðum. Hún þótti ekki mikill herramannsmatur og var því algengt að borða hana á Þorláksmessu á þessum slóðum. Í aldanna rás tókst Vestfirðingum á hinn bóginn að tilreiða úr skötunni mikið ljúfmeti eins og skötustöppuna, og mörgum þótti það merki um það að jólin væru í nánd þegar lykt tók að berast af stöppunni.
Eftir því sem leið á 20. öld flykktist fólk úr öllum byggðarlögum á suðvesturhorn landsins, Vestfirðingar ekki síður en aðrir. Þeir söknuðu Þorláksmessuskötunnar og margir reyndu að útvega sér hana úr heimahögum. Smám saman smitaði þessi venja þeirra út frá sér og eftir miðja öldina fóru margar fiskbúðir á höfuðborgarsvæðinu að hafa skötu á boðstólum í desember.
Alþekkt er í heiminum að matréttir sem upphaflega urðu til vegna fátæktar eða skorts á framboði þykja seinna lostæti. Ástæðan er oft það nostur sem hafa þurfti við matreiðsluna til að gera hráefnið gómsætt. Þetta á til dæmis við um ýmsa franska skelfisks- og sniglarétti. Fyrir utan skötuna má á Íslandi nefna laufabrauðið sem þurfti að vera örþunnt vegna mjölskorts á 17. og 18. öld, og rjúpuna sem upphaflega var jólamatur þeirra sem ekki höfðu efni á að slátra kind.
Í dag eru skötuveislur á mörgum stöðum á Suðurlandi og má nefna eftirfarandi:
Skötuveisla Lionsklúbbsins Laugardals verður frá klukkan 11:30-14:00 í Héraðsskólanum Laugarvatni. Í boði verður skata og saltfiskur.
Árviss skötuveisla Ungmennafélags Stokkseyrar verður í Íþróttahúsinu á Stokkseyri frá klukkan 11:30 – 14:00.
Rauða húsið á Eyrarbakka býður í dag upp á skötuhlaðborð auk saltfisks og plokkfisks í hádeginu og í kvöld.
Mömmumatur á Selfossi verður með skötuveislu ásamt fullt af öðru góðgæti frá klukkan 11:00-14:00.
Íþróttafélagið Hamar í Hveragerði heldur skötuveislu á Hótel Örk frá klukkan 11:00-14:00. Í boði verður skata, saltfiskur, meðlæti og eftirréttur.