2.3 C
Selfoss

Frá Selfossi til Burkina Faso: Nytjamarkaðurinn sem breytir lífum

Vinsælast

Nytjamarkaðurinn á Selfossi hefur verið hornsteinn í sunnlensku samfélagi í 16 ár. Hann var stofnaður af Hvítasunnukirkjunni 1. desember 2008. Hugmyndin var upphaflega að hafa hann bara opinn í desember það ár til að styrkja þau sem erfitt áttu eftir hrunið en sú varð sannarlega ekki raunin. Hann hefur haldist opinn öll þessi ár og styrkt mörg verðug málefni.

Væri ekki hægt án sjálfboðaliða

Selfyssingurinn Aron Hinriksson var forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar þegar Nytjamarkaðurinn opnaði. Hann segir alltaf nóg að gera þar. „Flesta daga koma einhver hundruð viðskiptavina. Það eru meira og minna allan daginn fullt af bílum fyrir utan.“

Hann segir það gera mikið fyrir samfélagið að hafa svona markað. „Fólk getur losað sig við hluti með góðri samvisku. Það finnst öllum leiðinlegt að þurfa að henda einhverju sem því þykir vænt um eða bara verðmætum yfir höfuð. Fólk kemur og gefur þeim nýtt líf hjá okkur sem er bara frábært.“

Stór hluti starfsmanna markaðarins vinnur í sjálfboðavinnu. „Hjá okkur er fólk stöðugt allan daginn að flokka vörur og verðmerkja og setja í hillur og svona. Það kemur mjög mikið inn af vörum og sem betur fer fer mikið út líka. En það þarf öflugan her af sjálfboðaliðum og starfsmönnum til þess að þetta gangi upp. Við erum með nokkrar ráðnar stöður en án sjálfboðaliða væri þetta ekki hægt. Það eru svona kjarnastöður sem við ráðum í.“

Nytjamarkaðurinn á Selfossi.

Styrkja verkefni í Burkina Faso

Hagnaður af markaðnum er gefinn í góðgerðamál. Á þessu ári hefur hann meðal annars styrkt Sjóðinn góða, Gleym mér ei, Sorgarmiðstöðina, TC Ísland, Bergið headspace, Kaffistofu Samhjálpar, Hlaðgerðarkot og Píetasamtökin og fleira. Í ár er algengt að félög séu styrkt um 500 þúsund til milljón krónur.

Ásamt íslenskum samtökum hefur Nytjamarkaðurinn styrkt skólaverkefni í Burkina Faso sem var stofnaður og byggður upp af foreldrum Arons og þar eru nú um 1270 nemendur. Eitt af verkefnunum sem Nytjamarkaðurinn hefur styrkt þar er forskóli fyrir börn á aldrinum fjögurra til fimm ára. Um 100 börn eru í forskólanum. Markmið hans er að undirbúa þau fyrir skólagöngu í frönskumælandi skóla.

„Burkina Faso er ættbálkasamfélag í grunninn og þar eru töluð yfir 70 tungumál. Síðan koma Frakkar inn og eru nýlenduherrar um tíma og innleiða frönsku sem aðaltungumál landsins. Þannig að flestir skólar kenna á frönsku. Það er ekki þar með sagt að börnin læri frönsku heima hjá sér, þau tala kannski allt annað tungumál. Þá er svo erfitt fyrir þau að koma í 6 ára bekk og mæta og vita ekkert hvað er í gangi. Þau voru að lenda í því að börn sátu eftir í bekk af því þau náðu ekki námsefninu, sem er svo leiðinlegt. Þess vegna var ákveðið að stofna þennan forskóla til þess að kenna þeim frönsku. Síðan er þeim líka kennt að lesa og skrifa og tölurnar,“ segir Aron.

Nemendur í forskólanum.

ABC-barnahjálparsamtökinn standa fyrir skólanum. Þau styrkja börn í nám út um allan heim. Í flestum tilfellum eru skólarnir á vegum heimamanna en íslenskir stuðningsaðilar styðja við börnin til dæmis með því að borga námsgjöldin og svoleiðis.

„Í þessu tilfelli er þetta eini skólinn á vegum ABC sem er algjörlega stofnsettur af Íslendingum. Hann er fjármagnaður af gjafafé og því sem kemur meðal annars frá Nytjamarkaðnum á Selfossi,“segirr Aron. Umræddur forskóli var t.d. að fullu byggður með gjafafé frá Nytjamarkaðnum.

Forskóli ABC í Burkina Faso.

Hefur allt gengið þrátt fyrir mótlæti

Eins og fyrr sagði voru það foreldrar Arons sem komu skólanum af stað. Mamma hans var kennari og skólastjóri á Íslandi í 40 ár og pabbi hans hafði tengsl út til Burkina Faso. Þegar þau voru í kringum sextugt voru þau fengin af ABC til þess að fara út í eitt fátækasta land í heimi og koma af stað skóla. Þau voru yfirleitt úti í fimm til sjö mánuði á ári til þess að sinna verkefninu sem er að mestu leyti tilbúið núna þannig að þau afhentu öðrum verkefnið fyrir ári síðan eftir að hafa verið starfandi í um 17 ár.

„Þau fóru út árið 2007. Þá var fyrirtæki sem hafði heitið ABC pening til þess að stofna skóla í fátæku ríki þar sem var mikið ólæsi. Á þeim tíma var einmitt gríðarlegt ólæsi í Burkina Faso. Meira en 70% þjóðarinnar var ólæs. Af því að þau höfðu tengsl þarna við þetta fátæka land þá var upplagt að stofna skóla þar. Síðan kemur hrunið og þetta fyrirtæki ætlaði að gefa 15 milljónir. Síðan fór það í hruninu þannig að þessar 15 milljónir urðu bara 10 milljónir og við það bættist gengisfall krónunnar þannig að verðmæti gjafarinnar var á endanum mun lægra en lagt hafði verið upp með. En þau fara með þetta af stað og síðan hefur þetta bara allt einhvern veginn gengið. Með því að gefast aldrei upp, halda áfram og nýta öll sambönd sem þau höfðu þá hafa þau náð að byggja upp þennan ótrúlega skóla,“ segir Aron um foreldra sína.

Breytir lífi manns að fara í svona land

Aron hefur sjálfur farið sex sinnum út og fór síðast í nóvember með tveimur bræðrum sínum og föður. Hann segir ferðalagið langt en algjörlega þess virði til þess að heimsækja skólann, hitta starfsfólkið sem vinnur þar og sjá allt það góða sem er í gangi. „Við erum rosalega heppin með kennara. Framkvæmdastjórinn er kona sem hefur verið frá upphafi. Algjörlega 100% manneskja. Allir starfsmenn eru menntaðir heimamenn frá Burkina Faso.


Hinrik og Guðný, foreldrar Arons, ásamt hluta af starfsmönnum ABC í Burkina Faso.

Aron segir það mjög gefandi að taka þátt í svona verkefni.

„Það breytir svolítið lífi manns að fara í svona land. Öll viðmið verða öðruvísi. Fátækt og svona skalar sem við getum bara ekki tengt við. Það er menningarsjokk fyrir marga sem fara út. Ég hef farið nokkrum sinnum með sjálfboðaliðahópa og það er mjög framandi fyrir Íslendinga að sjá hvernig fólk lifir þarna. Oft á fólk ekki neitt. Margir búa í litlum kofa, þannig að allt heimilið er í rauninni eitt herbergi og kannski margir í fjölskyldu. Þau sofa oft á þunnum plastmoppum á gólfinu og oft hefur fólk lítið að borða. Þetta er allt annar veruleiki og öll lífsgæði sem við erum alveg viss um að við þurfum nauðsynlega verða bara svolítið afstæð þegar maður kemur inn í þetta samfélag. Á sama tíma upplifir maður mikla lífsgleði, þakklæti og hlátur og það er kannski það sem hefur mest áhrif á mann, hvað þakklætið og gleðin er mikil þrátt fyrir fátæktina.“

Hressir nemendur bregða á leik.

Öll skólastig í boði fyrir börn

Aroni þykir mjög vænt um Burkina Faso-verkefnið og tenginguna sem Íslendingar eiga við það.

„Þegar ég kom fyrst á staðinn þar sem skólinn er var þar nánast ekkert. Þetta var land í útjaðri borgarinnar og bændur ráku stundum beljurnar sínar þvert yfir skólasvæðið. Þegar ég kom var bara ein hálfkláruð bygging komin. Síðan hefur þetta allt byggst upp. Núna er forskóli, grunnskóli og stór framhaldsskóli. Þannig að börnin, sem eru valin fátækustu heimilum svæðisins, geta farið alveg frá forskólanum og í gegnum öll skólastigin og útskrifast úr framhaldsskóla. Auk þess eru þau börn sem klára framhaldsskólann studd áfram af Íslendingum til þess að komast í háskóla.“

Skólasvæði ABC í Burkina Faso.

Hann segir foreldra sína einnig hafa lagt áherslu á að kenna ensku í skólanum af því þannig fái þau ákveðið forskot sem opni ný tækifæri. Þau gera það meðal annars í gegnum tölvur.

„Það er maður á Akureyri sem hefur haft mikinn áhuga á starfinu og safnað saman fullt af tölvum sem hafa verið fluttar út með gámi. Það hefur verið sett upp fullkomin tölvustofa sem er líklega sú fullkomnasta í þessari borg, ef ekki bara öllu landinu í svona skóla. Skólinn er tengdur við Starlink hjá Elon Musk þannig að netið er orðið mjög gott. Það voru alltaf vandræði með netið áður.

Aðstaða fyrir tómstundir er líka góð. Það er handbolta-, fótbolta- og körfuboltavöllur og einnig er hægt að æfa fimleika. „Það er mjög fjölbreytt starf og þau geta valið sér íþróttir. Það er kominn skákklúbbur líka. Nýlega varð einn nemandi í skólanum í fjórða sæti á landsvísu. Síðan hafa þau staðið sig vel í handboltanum og skólaliðið farið til keppni í höfuðborginni. Það er virkilega gott starf í gangi í skólanum og það fyllir verulega á tankinn hjá manni að fara þarna út,“ segir Aron.

Að lokum vill hann þakka fyrir öll þessi 16 ár sem Nytjamarkaðurinn hefur verið starfsræktur og fólk má vita að með því að versla þar og gefa þá er það að taka þátt í fjölbreyttu hjálparstarfi og bæta lífið fyrir marga.

Nýjar fréttir