Hvergerðingurinn Brynjar Óðinn Atlason er ungur og efnilegur fótboltamaður. Hann hefur spilað fyrir bæði U15 og U16 landslið Íslands ásamt því að spila með meistaraflokki Hamars þrátt fyrir að vera aðeins 15 ára. Hann er nýlega kominn heim frá Argentínu þar sem hann fékk að æfa fótbolta í tvo mánuði.
Hugmyndin kom upp í heita pottinum
Eins og áður sagði hefur Brynjar verið að spila með meistaraflokki Hamars í fótbolta. Með honum í liðinu voru tveir menn frá Argentínu, Guido Rancez og Roli Depetris. Guido hafði oft talað um hvað Brynjar væri efnilegur í íþróttinni og þegar þeir voru saman í heita pottinum í sundlauginni í Hveragerði einn daginn kom til tals að Brynjar færi út til Argentínu að spila. „Brynjar kemur einhvern tímann heim og þá eru þeir búnir að vera að spjalla í heita pottinum um þetta,“ segir Berglind, móðir Brynjars.
Í kjölfarið var ákveðið að láta verða af þessu. Brynjar fór út til Argentínu ásamt Guido 13. október og var þar til 9. desember.
Allt samfélagið tók Brynjar inn
Brynjar bjó hjá fjölskyldu Guido í San Justo meðan hann var úti og var tekið mjög vel á móti honum. Þegar Brynjar kom til San Justo var fjölskylda Guido búin að búa til borða með nafninu hans þar sem hann var boðinn velkominn.
„San Justo er mjög lítill bær en það búa samt um 30 þúsund manns þar. Þannig að á okkar mælikvarða er þetta mjög stórt. Einhvern veginn allt samfélagið tekur hann inn þegar hann kemur og hann verður einn af samfélaginu strax, bæði borginni og íþróttafélaginu. Þetta virðist vera svo lítið samfélag. Foreldrar hans Guido voru líka ofboðslega góð við hann,“ segir Berglind.
Brynjar fékk að einbeita sér alveg að æfingum meðan hann var úti og einkenndust dagarnir hans af því.
„Það var bara vaknað og ég fékk mér morgunmat. Svo fór ég að læra aðeins eða fór út að halda á lofti. Það var hádegismatur og æfing klukkan eitt. Svo vorum við bara að fara í ræktina eða pilates. Það var eiginlega bara prógram alla daga,“ segir Brynjar.
Æfði með þremur liðum
Brynjar æfði með meistaraflokki Colon De San Justo sem er í 4. deild í Argentínu en hann mátti ekki spila með þeim sökum ungs aldurs. Hann fór líka á æfingar með tveimur 1. deildar liðum. Annað hét Union De Santa Fe og hitt Newell‘s Old Boys de Rosario, en það er stundum kallað Messi‘s Club. Þar hafa t.a.m. Lionel Messi og Diego Armando Maradona spilað.
Langar að hjálpa til að láta drauminn rætast
Brynjar reyndi eins og hann gat að sinna náminu á meðan hann var úti og segist hafa verið á áætlun þegar hann kom heim. Berglind segist vera mjög stolt af Brynjari.
„Ég hefði ekki leyft þetta nema af því ég hef trú á honum. Ég veit að hann er góður námsmaður og ég veit hvað hann er efnilegur. Ég veit hvað hann langar þannig að ég vil bara hjálpa honum að láta hans drauma rætast.“ Hún segir að hann sé eini Íslendingurinn sem hafi æft og spilað í Argentínu. „Það eitt og sér er bara eitthvað svo frábært,“ tekur hún stolt fram.
Brynjar segir það vera mjög þroskandi og góða reynslu að fara svona út. „Þetta er allt öðruvísi menning og öðruvísi fótbolti en ég er vanur, hann er miklu grófari.“
Hápunkturinn að kynnast nýrri menningu og nýju fólki
Ásamt því að spila fótbolta sótti Brynjar spænskutíma tvisvar í viku. „Ég er ekki nógu sleipur í spænskunni en þetta kemur. Ég fór í kennslu tvisvar sinnum í viku og það gekk bara mjög vel en svo held ég að ég hafi lært mest af strákunum og Duolingo,“ tekur hann fram.
Brynjar fór í eitt útvarpsviðtal í Argentínu með Guido þar sem hann skildi lítið en segir reynsluna hafa verið skemmtilega. Enginn nema Guido kunni ensku og segir Brynjar að það hafi því verið mjög gott að koma heim og tala íslensku.
Þrátt fyrir samskiptaörðugleika eignaðist Brynjar fullt af nýjum vinum í Argentínu. Hann segir hápunkt ferðarinnar hafa verið að kynnast nýrri menningu og nýju fólki. „Það eru toppmenn í þessu liði þarna og góður karakter í því.“
Hann segist ekki endilega vilja fara til Argentínu aftur þar sem ferðalagið sé mjög langt. Hann þurfti fyrst að fljúga í þrjá klukkutíma til Amsterdam og þaðan í 13 tíma flug til Buenos Aires. Eftir það tók svo við 7 tíma keyrsla til San Justo.
Brynjar segir drauminn vera að gerast atvinnumaður í Evrópu. Hann stefnir á að vera aftur í landsliðshóp fyrir komandi landsliðsverkefni U16 ára liðsins og langtímadraumurinn er að komast í A-landslið Íslands. „Hann er alveg með getuna í það. Guido skrifaði til mín um daginn: „Ég veit það og er búinn að sjá það að hann fer þangað sem hann ætlar sér,“ segir Berglind að lokum.