-3.6 C
Selfoss

Skólastjórar í jólaskapi

Vinsælast

Í aðdraganda jólanna höfðum við samband við nokkra skólastjóra á Suðurlandi og fengum að vita aðeins um þeirra jólahefðir og minningar.

Íris Anna Steinarrsdóttir

Íris Anna Steinarrsdóttir. Bláskógaskóli.

Jólin mega koma þegar…skólinn fer í jólafrí.

Brún eða hvít lagterta? Brún lagterta.

Uppáhaldsjólaminningin mín er…við systkinin heima hjá ömmu Petronellu.

Hvað er á jólaborðinu? Kalkúnn, sætkartöflukaka, Waldorfssalat, salat, sósa, fylling og jólaöl.

Jólamynd eða jólabók? Jólamynd.

Uppáhaldsjólasveinninn minn er… Stekkjastaur.

 

Ólína Þorleifsdóttir

Jólin mega koma þegar… Nemendur hafa verið kvaddir þann 20. desember eftir skemmtilega og viðburðaríka aðventu í skólanum. En aðventan er alltaf skemmtilegur tími í skólastarfinu, ýmsar fallegar jólahefðir og tilhlökkun í loftinu.

Ólína Þorleifsdóttir.
Grunnskólinn í Þorlákshöfn.

Brún eða hvít lagterta? Brúna lagtertan á alltaf vinninginn! Og ég verð að segja að hún er einfaldlega best frá Myllunni. Klassík sem klikkar aldrei.

Uppáhaldsjólaminningin mín er…Þegar stelpurnar mínar voru litlar og trúðu á jólasveininn. Þá var oft farið ansi langt í leikritinu, skyri klínt á gluggakistur, spor í snjóinn og jafnvel bréf frá sjálfum jólasveininum. Það er eitthvað svo dásamlegt við þessa barnslegu gleði og eftirvæntingu!

Hvað er á jólaborðinu? Við erum alltaf með tvo aðalrétti. Fyrri rétturinn er klassískur hamborgarhryggur með öllu tilheyrandi. Seinni rétturinn er ekki alltaf sá sami, stundum hnetusteik, stundum lamb, en undanfarin ár hefur það verið kalkúnaskip.  Í eftirrétt erum við yfirleitt með Konfektístertu frá Kjörís og heimatilbúinn ís sem er mismunandi frá ári til árs.

Jólamynd eða jólabók? Ég verð að segja bæði! Það er ómissandi að horfa á góða (eða svo slæma að hún verður góð) jólamynd með fjölskyldunni. En það er líka algjörlega ómissandi hlut af jólunum að verja  jóladegi í náttfötunum með góða bók í hönd.

Uppáhaldsjólasveinninn minn er…Sprengjusníkir en hann er líklega bara til í minni fjölskyldu. Hann kom alltaf í partýið á gamlárskvöld til foreldra minna, þegar mínar stelpur mínar voru litlar. Hann er mikill grallari og elskar að fá smá forskot á sæluna. Kom með fullan poka af sælgæti og fékk í staðinn að  sprengja nokkrar sprengjur fyrir miðnætti með krökkunum.

 

Þórunn Jónasdóttir

Jólin mega koma þegarþeirra tími er kominn, hef lært það gegnum tíðina að jólin koma alltaf hvernig sem aðstæður eru og þau snúast í mínum huga um innri frið og samveru fjölskyldunnar en ekki veraldlega hluti.

Brún eða hvít lagterta? Brún heimabökuð af mömmu, algjört sælgæti.

Þórunn Jónasdóttir.
Flóaskóli.

Uppáhaldsjólaminningin mín erað fá margar bækur í jólagjöf, skríða svo undir sæng og lesa alla jólanóttina.

Hvað er á jólaborðinu? Lambahryggur ásamt öllu helsta meðlæti og heimagerður jólaís með jarðarberjum í eftirrétt.

Jólamynd eða jólabók? Bæði betra, jólamyndir á aðventunni en jólabækur yfir hátíðirnar.

Uppáhaldsjólasveinninn minn erkertasníkir.

 

Sævar Þór Helgason

Jólin mega koma þegarÞegar jólin koma? Það er ljómandi gott lag eftir Heimi vin minn sem hefur fengið endurnýjun hjá IceGuys flokknum. Annars kemst ég í „grunn“ jólaskap í fyrsta gangasöng í skólanum.

Sævar Þór Helgason.
Grunnskólinn í Hveragerði.

Brún eða hvít lagterta? Brún, og vonandi verður til rjómi.

Uppáhaldsjólaminningin mín erJól með fjölskyldunni er alltaf góður tími. Það er ákveðið uppáhald að minnast strákanna minna þegar þeir voru yngri og í miklu jólastuði, forskot á jólapakkana og byrjað á einu Legói fyrir hádegi, sem jafnvel tók allan daginn að klára. Í minningunni eru æskujólin mín í Brautartungu hjá afa og ömmu sykursæt, blíð og góð.

Hvað er á jólaborðinu? Léttreyktur lambahryggur er aðalrétturinn.

Jólamynd eða jólabók? Jólabók. Hef verið svo heppinn í gegnum tíðina að Kertasníkir gefur mér bók sem yfirleitt endist fram á jóladag.

Uppáhaldsjólasveinninn minn erÞað var alltaf Stúfur, en Kertasníkir hefur algerlega tekið yfir á vinsældalistanum.

 

Páll Sveinsson

Jólin mega koma þegaredikilmurinn svífur um húsið á Þorláksmessukvöld og heimalagaða rauðkálið tekur á sig mynd í pottinum.

Brún eða hvít lagterta? Ég er bara ekkert hrifinn af lagtertum!

Páll Sveinsson.
Vallaskóli.

Uppáhalsjólaminningin mín er…Ég á svo margar góðar jólaminningar, að sitja og horfa út um gluggan á aðfangadag og bíða eftir að afi og amma renni í hlaðið úr Hafnarfirði, að skjótast til Stebba frænda eftir pakka og fá að sjá hvað hann fékk í jólagjöf, laufabrauðsgerð með fjölskyldununni margt fleira.

Á jólaborðinu erkaffibolli, konfekt, kerti og bók. Kannski glas með skosku maltviský.

Jólamynd eða jólabók? Uppáhaldsmyndin er Christmas Vacation, hún er yfirleitt alltaf sett í tækið á Þorláksmessu – á meðan rauðkálið er soðið.

Uppáhaldsjólasveinninn minn er…Hérna áður varð það Hurðaskellir, fannst hann vera töffari. Í dag er það sennilega Ketkrókur, ég tengi best við hann í seinni tíma.

 

Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir

Jólin mega koma þegar…Síðasti jólasveinninn er kominn til byggða.

Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir.
Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Brún eða hvít lagterta? Ég er ekkert fyrir lagtertur en uppáhalds jólabakkelsið mitt eru blúndurnar hennar mömmu.

Uppáhaldsjólaminningin mín er…Undirbúningur jólanna var oft skemmtilegastur. Að baka fyrir jólin, skreyta á þorláksmessu, bera út jólakortin, hangikjötslyktin og samveran með fjölskyldunni.

Hvað er á jólaborðinu? Wellington með tilheyrandi!

Jólamynd eða jólabók? Jólabók en jólamyndin er nauðsynleg líka!

Uppáhaldsjólasveinninn minn er…Hurðaskellir

 

Soffía Sveinsdóttir

Jólin mega koma þegar…klukkan slær sex á aðfangadag.

Soffía Sveinsdóttir.
Fjölbrautaskóli Suðurlands.

Brún eða hvít lagterta? Brún

Uppáhaldsjólaminningin mín er…frá því þegar ég var í góðum félagsskap á Kýpur. Dásamlegt að verja jólunum í sól og afslöppun.

Hvað er á jólaborðinu? Ólst upp við hamborgarhrygg og við pabbi elduðum hann saman í mörg ár, alltaf sömu uppskriftina. Hef stundum eldað hamborgarhrygginn síðan ég fór að búa en höfum líka breytt til. Þetta árið ætlum við að vera með andalæri með skólastjórasósu (uppskrift frá Sævari skólastjóra Grunnskólans í Hveragerði).

Jólamynd eða jólabók? Góð jólabók.

Uppáhaldsjólasveinninn minn er…Kertasníkir því hann gaf veglegar gjafir í skóinn þegar ég var lítil. Hann var líka svo sniðugur að pakka inn í álpappír og stela jólaskrauti frá mömmu og pabba til að skreyta pakkann með .

 

Kristín Sigfúsdóttir

Jólin mega koma þegardesember dagskrá Grunnskólans á Hellu lýkur. Erum með margar frábærar jólahefðir sem alls ekki mega missa sín áður en jólin ganga í garð.

Brún eða hvít lagterta? Alltaf brún.

Kristín Sigfúsdóttir.
Grunnskólinn á Hellu.

Uppáhaldsjólaminningin mín erpakkinn sem við systkinin fengum að opna fyrir matinn á aðfangadagskvöld. Ég hef líka alltaf elskað að enda kvöldið á því að lesa góða bók, helst svo góða að ég geti ekki hætt fyrr en henni er lokið.

Hvað er á jólaborðinu? Hamborgarhryggur með öllu tilheyrandi, þ.m.t. heimatilbúið rauðkál sem er algjörlega ómissandi. Toblerone-ís og ananasfrómas í eftirrétt.

Jólamynd eða jólabók? Jólabók, ekki spurning!

Uppáhaldsjólasveinninn minn erStúfur, samsama mig svolítið við hann!

Ég óska öllum Sunnlendingum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

 

Jóna Katrín Hilmarsdóttir

Jólin mega koma þegar…Jólatónleikar ML kórsins eru um garð gengnir. Upptakturinn að aðventunni hjá mér er þegar jólatónleikar ML kórsins fara fram í lok nóvember eða í upphafi aðventunnar. Þegar þeim er lokið finnst mér ég geta lagt af stað í jólaundirbúning. Annars er desember mikill annatími hjá þeim sem starfa í menntageiranum og jólaundirbúningur minn einkennist helst af því að finna leiðir til að að slaka og vera í ró.

Jóna Katrín Hilmarsdóttir. Menntaskólinn að Laugarvatni.

Brún eða hvít lagterta? Brún, hrærð, mikið krem, en borða bara afskurðinn. Gef restina frá mér.

Uppáhaldsjólaminningin mín er…jólin þegar dóttir mín var þriggja ára gömul og við héldum í fyrsta skipti jól saman sem lítil fjölskylda. Án efa mín fallegasta jólaminning.

Hvað er á jólaborðinu? Aðalréttur er síbreytilegur en purusteik eða skötuselur eru í uppáhaldi hjá mér. Hver einustu jól er reyktur lax á borði og þá oft í hádeginu á jóladag. En eftirrétturinn á aðfangadag er heilagur, ris á la mande að hætti mannsins míns. 

Jólamynd eða jólabók? Bæði er betra. Jólamyndir um aðventuna og svo góð jólabók yfir hátíðarnar. Christmas Vacation er jólamynd í miklu uppáhaldi hjá mér og ég reyni líklega að spila hana á aðventunni á meðan ég þríf og skreyti. Svo er ég mjög spennt fyrir nýju bókinni hennar Nönnu Rögnvaldar í yfirstandandi jólabókaflóði.

Uppáhaldsjólasveinninn minn er…Kertasníkir því hann er síðastur en alls ekki sístur. Mér þykir það svo mikill mannkostur þegar fólk er ekki að trana sér neitt og er bara sátt við að vera aftast í röðinni.

Nýjar fréttir