-3.6 C
Selfoss

Hin ómissandi jólastjörnuspá Spássíu

Vinsælast

Spássía, góðvinur Dagskrárinnar, færir lesendum annað árið í röð hina ómissandi jólastjörnuspá. Um leið og hún biður ykkur vel að lifa og vonar að þið njótið spádómsins, vill hún nýta tækifærið og færa Sunnlendingum nær og fjær hugheilar jóla- og nýárskveðjur.

Mynd: Freepik.

Vatnsberinn 20. janúar – 18. febrúar

Kæri vatnsberi, þú hefur einstakt lag á að gera jólaundirbúninginn frumlegan og skemmtilegan! Kannski ertu að skipuleggja svarta jólaseremóníu með glimmeri og bláum ljósum eða jólamatinn með vegan tvisti sem enginn bjóst við. Haltu áfram að vera þú, þínar hugmyndir gefa jólunum ferskan blæ.

Jólin eru líka tími fyrir fjölskyldu og vini og þú munt njóta þess að skapa nýjar hefðir. Gefðu þeim tækifæri til að sjá lífið í þínum litríka heimi.

Mynd: Freepik.

Fiskarnir 19. febrúar – 20. mars

Kæri fiskur, þú hefur hugsanlega tekið þig til og föndrað allar jólaskreytingarnar sjálfur, já eða bakað dásamlegar jólasmákökur sem dreifa jólailmnum í hvert horn hússins. Þú nýtur þess að gefa af þér, en mundu líka að jólin eru líka fyrir þig að njóta.

Leyfðu öðrum að sjá um hluta af jólastressinu, það er allt í lagi að slappa aðeins af, setjast niður og njóta augnabliksins. Þú ættir að prófa að hugleiða í ljósadýrð jólatrésins og muna að hátíðin snýst um hlýju og gleði, ekki fullkomnun.

Mynd: Freepik.

Hrúturinn 21. mars – 19. apríl

Kæri hrútur, þú ert kraftaverkið á bak við allt jólastússið! Hvort sem það er að halda uppi anda jólasveinanna eða klára verkefnin sem hin gleymdu, þá tekst þér að gera meira en flestum á helmingi minni tíma.

En jafn duglegur og þú ert, þarftu að muna að gefa sjálfum þér andrými. Settu þig í fyrsta sæti svona einu sinni og leyfðu öðrum að sjá um hlutina. Ekki bara raða sörum á kökudiskinn, borðaðu þær líka!

Mynd: Freepik.

Nautið 20. apríl – 20. maí

Kæra naut, þú hefur líklega búið þig undir jólin síðan í sumar, þegar þú byrjaðir að safna fullkomnum jólagjöfum á sumarútsölum. Hæfileiki þinn til að halda ró og stöðugleika gerir þig að traustum kletti fyrir fjölskylduna þegar jólastressið hellist yfir.

Þetta ár gæti þó boðið upp á áskoranir. Kannski mætir einhver óvænt í jólaboð eða stingur upp á tillögu að breytingu á hefð sem er í uppáhaldi hjá þér. Það er í lagi að fara út fyrir þægindarammann. Þú munt sjá að litlar breytingar geta gert hátíðarnar eftirminnilegri.

Mynd: Freepik.

Tvíburarnir 21. maí – 20. júní

Kæri tvíburi, þú ert jólaskemmtikrafturinn sem allir elska! Hvort sem þú ert að segja brandara við jólaborðið eða taka þátt í alls kyns leikjum, heldur þú gleðinni gangandi með þinni bráðsmitandi gleði og bjartsýni.

Hafðu það þó hugfast að það er í lagi að segja „nei“ þegar þú ert beðinn um eitthvað, það kemur maður í manns stað. Gefðu þér tíma til að hlaða batteríin, þú munt skína enn skærar á nýju ári ef þú leyfir þér að slaka á.

Mynd: Freepik.

Krabbinn 21. júní – 22. júlí

Kæri krabbi, jólin eru tíminn sem þú lifir fyrir og leyfir þér að hlakka til allt árið. Gjafirnar þínar eru allar hugsaðar út í þaula og þú nýtur þess að skapa nýjar minningar með fjölskyldunni. Að bjóða fólkinu þínu heim, skapa notalegt andrúmsloft og krúttast með jólatónlist, kertum, skrauti, mat og alls kyns veisluföngum er þar sem ljósið þitt skín skærast.

Mundu bara að setja þig í fyrsta sæti líka. Láttu aðra sjá um uppvaskið og leyfðu þér að halla þér aftur og njóta.

Mynd: Freepik.

Ljónið 23. júlí – 22. ágúst

Kæra ljón, jólin eru eins og sviðsljósin sem þú lifir fyrir. Hvort sem þú skreytir húsið eins og það sé þátttakandi í jólaljósakeppni eða býrð til einstaklega skapandi og hugvitsamlegar jólagjafir, þá snýst allt um að gefa af þér og gleðja aðra Þúú hefur einstaka leiðtogahæfileika sem koma í ljós þegar fjölskyldan eða vinirnir þurfa að taka sameiginlegar ákvarðanir, eins og hvað eigi að elda eða hvaða jólamynd eigi að horfa á.

Mundu að það sem skiptir mestu máli er að njóta samverunnar, því jólin eru líka til að skapa minningar.

Mynd: Freepik.

Meyjan 23. ágúst – 22. september

Kæra meyja, þú hefur sett saman óaðfinnanlegan jólalista sem inniheldur allt frá smákökusortum til skrautsins sem mun hanga fullkomlega á trénu. Þessi fullkomnunarárátta getur verið þér þung, sérstaklega í aðdraganda jólanna. Þetta ár gæti verið góður tími til að sleppa takinu aðeins.

Prófaðu að deila ábyrgðinni og leyfa öðrum að sjá um hlutina, hvort sem það væri að leyfa börnunum að skreyta tréð eða láta einhvern annan sjá um sósugerðina. Ef þú tekst á við jólin með léttara hugarfari muntu uppgötva hvað þau geta verið afslappandi og dásamleg.

Mynd: Freepik.

Vogin 23. september – 22. október

Kæra vog, þú ert eins og lifandi jólatilfinning sem færir jafnvægi og ró inn í öll jólaboð. Þú hefur einstakt lag á að halda ró þinni jafnvel þegar jólastressið ríður yfir, og þú nærð að smita fólkið í kringum þig með þessari stóísku ró. Jólin eru tíminn þar sem þú blómstrar í samskiptum, hvort sem það er á jólatónleikum, í vinaboðum eða með fjölskyldunni. Þú nýtur þess að skapa fallegar og eftirminnilegar stundir með smekklegum skreytingum og vel úthugsuðum gjöfum.

Mundu samt að hugsa líka um þig, þú átt skilið að dekra við sjálfa þig og fylla jólin af þeim litlu hlutum sem gleðja hjartað þitt.

Mynd: Freepik.

Sporðdrekinn 23. október – 22. nóvember

Kæri sporðdreki, þú ert eins og dularfullur jólasveinn sem kemur fólki sífellt á óvart með því sem þú tekur þér fyrir hendur. Gjafirnar sem þú velur eða býrð til sjálfur eru alltaf persónulegar og fullar af tilfinningu og þú nýtur þess að sjá glitta í gleðina hjá þeim sem fá þær.

Vertu þó varkár að setja ekki of mikla ábyrgð á þig sjálfan, það er í lagi að láta aðra sjá um hluta af undirbúningnum. Að leyfa öðrum að taka þátt getur leitt til yndislegra augnablika sem þú gleymir seint.

Mynd: Freepik.

Bogmaðurinn 23. nóvember – 22. desember

Kæri bogmaður, jólastemningin er í hámarki hjá þér og þú ert lífið og sálin í öllum viðburðum desembermánaðar! Á þessu ári hefur þú líklega skipulagt heila jólaferð fyrir vini eða fjölskyldu, jafnvel þó að þau hafi ekki beðið um það. En ekki láta það stoppa þig! Jólaorkan þín er smitandi og þú munt sjá að fólkið þitt mun njóta þess sem þú hefur lagt á þig.

Mundu samt að það er líka í lagi að njóta rólegra jólamorgna með heitum kakóbolla og uppáhalds jólabókinni þinni. Þú þarft ekki alltaf að vera aðalskemmtikrafturinn. Stundum er nóg að vera áhorfandi á eigin jólaskemmtun.

Mynd: Freepik.

Steingeitin 23. desember – 20. janúar

Kæra steingeit, þolinmæði þín verður þér til happs þegar desembermánuður rýkur framhjá á ljóshraða. Þú ert sú sem tryggir að allt gangi upp, hvort sem það er að tryggja að jólatréð standi beint eða að sjá til þess að öll jólakortin skili sér á réttum tíma.

Þó er mikilvægt að muna að enginn tekur eftir smáatriðunum eins og þú, svo það er í lagi að slaka á! Leyfðu þér að njóta þess að vera í núinu. Eftir áramót munu nýjar áskoranir bíða þín en jólin eru akkúrat tíminn til að njóta hlýjunnar og gleðinnar með fólkinu þínu.

Þessi stjörnuspá er ekki byggð á vísindalegum rannsóknum, heldur tilfinningu spákonu á stöðu merkjanna í desember. Engu merkjanna ber skylda til að fylgja ráðum spárinnar ern eru eindregið hvött til þess.

Nýjar fréttir