5.6 C
Selfoss

Bernskujól í Bláskógabyggð

Vinsælast

Fyrir um 100 árum hélt sjö ára stúlka jólin hátíðleg ásamt fjölskyldu sinni. Þessi stúlka hét Þórey Ólafsdóttir og bjó á Upphólum, torfbæ sem stóð miðja vegu milli Gullfoss og Geysis. Þórey var fædd árið 1915 og segir frá jólum í torfbænum. Þarna segir hún frá þeirri tilbreytingu sem jólin voru, jólaundirbúningnum, hefðum og siðum, leikjum barnanna, eftirvæntingunni, ljósinu, matnum og jólagjöfunum svo fátt eitt sé tínt til. Þórey segir líka frá jólatrénu sem pabbi hennar smíðaði og var mikið augnayndi, sérstaklega þegar kveikt hafði verið á öllum kertunum. Þessari fallegu frásögn hafa börnin í 1.-4. bekk í Bláskógaskóla kynnst núna í aðdraganda jóla og safnvörður Byggðasafns Árnesinga var svo heppinn að fá að vinna með þeim. Leiftrandi kát og snjöll börn sem tóku virkan þátt og höfðu mikið til málanna að leggja og frá ýmsu að segja.

Ljósmynd: Aðsend.

Samvinna okkar fólst í því að safnvörður hafði komið til þeirra þremur spýtujólatrjám sem eru eftirgerðir af jólatré frá Miðengi í Grímsnesi sem varðveitt er á safninu. Þessi tré máttu börnin skreyta eftir eigin höfði og þegar nær dró desember heimsótti safnvörður hópinn og átti með þeim notalegt jólaspjall yfir fallegu líkani af torfbæ sem rammaði inn ljúfa stund um jólin þeirra í dag og gömlu jólin hennar Þóreyjar. Í ár fékk spjallið alveg nýja vídd vegna sögunnar hennar Þóreyjar af sínum æskujólum en börnin í Bláskógaskóla sem skreyttu trén eru í dag sum hver sjö ára líkt og Þórey í sögunni og sum hver eru fædd árið 2015 þannig að þarna var einstakt tækifæri fyrir þau að kynnast jólum jafnöldru sinnar og sveitunga fyrir 100 árum, bernskujólum í Bláskógabyggð þá og nú. Og viti menn þó að heil öld skilji að og ótal margt hafi breyst má greina þræði sem eru vissulega enn þeir sömu. Jólin eru ennþá tilbreyting, þau eru hátíðleg, tími ljósa og við gerum vel við okkur á ýmsan hátt.

Börnin sóttu innblástur í gamla skrautið, þau fóru út í skóg og söfnuðu efnivið, líkt og þegar lyng var tínt áður fyrr til að prýða trén. Þau nýttu sér líka afganga úr smíðastofunni, bjuggu til jólasveina úr könglum og perlum, klipptu út pappírskerti og skiluðu til okkar einstaklega fallega skreyttum trjám. Eitt tré sker sig sannarlega úr, ADHD-tréð er einnig fallegt en það prýðir afar óhefðbundið skraut. Þetta tré er skreytt með fiktdóti sem sannarlega má koma við en börnunum fannst mikilvægt að koma því til skila að það hentar ekki öllum að vera í aðstæðum þar sem ekkert má snerta, líkt og er iðulega á söfnum.

Ljósmynd: Aðsend.
Ljósmynd: Aðsend.
Ljósmynd: Aðsend.

Endilega leggið leið ykkar í Húsið á Eyrarbakka næstkomandi sunnudag, þá er hægt að skoða trén og fikta í a.m.k. einu þeirra. Jólasýning safnsins verður opin 15. desember frá kl. 13-17.

Byggðasafn Árnesinga

Nýjar fréttir