6.7 C
Selfoss

Hláka og rigning valdur bilunarinnar

Vinsælast

Eftir langvarandi rafmagnsleysi voru allir íbúar frá Vík og að Brekku í Mýrdal komnir með rafmagn frá varaaflsvélum kl. 18:10 í gær. Klukkan 19:04 náðist að koma rafmagni á frá Brekku að Ytri-Sólheimum. Nokkru fyrr hafði starfsfólk RARIK unnið að því að byggja upp og koma á rafmagni aftur í Mýrdal en þegar verið var að tengja síðasta hluta hans, um kl. 17:15, datt allt rafmagn út aftur. Þetta gerðist vegna bilunar í jarðstreng sem liggur frá spennistöð við Ytri-Sólheima að sendi á Sjónarhóli.

Hláka og rigning með tilheyrandi vatnavöxtum eru valdur þessarar bilunar, sem og bilunin í strengnum sem liggur undir Skógá, og gera jafnframt viðgerðir erfiðar. Spennistöð RARIK við Ytri-Sólheima var umlukin vatni í gær og af ummerkjum að dæma hafði, þegar mest var, staðið vatn upp á hana miðja. Framkvæmdaflokkar RARIK stefna á að meta aðstæður þar í dag til að undirbúa viðgerð en þarna fór t.d. vegur í sundur vegna vatnavaxta.

RARIK hefur sett upp aðgerðaáætlun til að gera við strenginn undir Skógá eins fljótt og mögulegt er. Áætlunin miðar að því að stytta þann tíma sem keyra þarf varaaflsvélarnar en tryggja jafnframt öryggi starfsfólks. Vegna þess hversu erfiðar aðstæður eru á staðnum og vegna áframhaldandi hlýinda í veðurspám er enn ekki ljóst hvenær hægt verður að hefja eða ljúka viðgerðinni.

Varaaflskeyrsla er mannaflafrekt verkefni þar sem vakta þarf vélarnar allan sólarhringinn og stýra þeim miðað við notkun. Auk þess er varaafl viðkvæmt fyrir álagi og getur því dottið út ef álag eykst skyndilega. Af þeim sökum eru viðskiptavinir beðnir um að fara sparlega með rafmagn eins og mögulegt er, sérstaklega þegar gera má ráð fyrir álagstoppum, t.d. á morgnana og í kvöldmatartíma.

RARIK vill þakka öllum sem aðstoðuðu við bilanaleitina fyrir vel unnin störf og sveitarstjórn Mýrdalshrepps og íbúum sveitarfélagsins fyrir þolinmæði og þrautseigju í erfiðum aðstæðum.

Nýjar fréttir