Á fundi Oddfellowstúkunnar Atla á Selfossi þann 5.desember sl. var Krabbameinsfélag Árnessýslu með erindi um starfsemi félagsins á Suðurlandi. Kom fram í máli Svanhildar Ólafsdóttur, formanns félagsins, að starfsemin væri nánast öll rekin með sjálfboðaliðum og þörfin á félaginu væri mikil. Mikið og óeigingjarnt starf er unnið hjá félaginu þar sem veittur er margskonar stuðningur við krabbameinssjúka jafnt sem aðstandendur. Að þessu tilefni færði Oddfellowstúkan Atli félaginu styrk upp á 600.000 kr. til styrktar enn frekari starfsemi félagsins. Þessi upphæð safnaðist við sölu happdrættismiða á Kótilettukvöldi Atla sem haldið var í haust.