Dagskrá menningarmánaðarins október í Árborg liggur nú. Fjöldi áhugaverðra viðburða er í mánuðinum sem hefst 30. september í Húsinu á Eyrarbakka.
Hluti af dagskrá menningarmánaðarins er tileinkaður annars vegar 70 ára afmæli Selfosskaupstaðar og hins vegar 120 ára ártíð Eyrarbakkahrepps. Verður það gert með tónleikum, sögum og fleiri uppákomum.
Dagskrá mánaðarins er aðgengileg á heimasíðu Árborgar ásamt skemmtilegri litabók sem verður send inn á öll heimili í sveitarfélaginu.
Af helstu liðum dagskrárinnar má nefna að föstudaginn 30. September kl. 21 mun „Næturdrottning“ taka á móti gestum í Húsinu á síðasta sýningardegi sumarsýningarinnar „Kjóllinn“. Sýningunni lýkur með pompi og prakt sunnudaginn 1. október. Kjólaflóð verður í stofum Hússins, söngdíva gleður gesti, hönnuður sýnir einstakan grjótakjól, rithöfundur veltir vöngum, verslunarkonur segja bransasögur og kjólakaffi verður í boði safnsins. Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkir viðburðinn.
Laugardaginn 7. október kl. 16:00 verður formleg opnun menningarmánaðarins með „Skálasögum“ í Tryggvaskála . Í tilefni af 70 ára afmæli Selfossbæjar verður saga Tryggvaskála sögð í lifandi frásögn þeirra Bryndísar Brynjólfsdóttur, Þóru Grétarsdóttur, Þorvarðar Hjaltasonar og fleirum. Kristjana Stefáns syngur við undirleik Kjartans Valdemarssonar og Mánarnir Labbi og Bassi spila nokkur lög.
Sunnudaginn 8. október kl. 16:00 verða notalegir tónleikar í Eyrarbakkakirkju í tilefni af 120 ára ártíð Eyrarbakkahrepps og 140 ára afmæli Sigfúsar Einarssonar, tónskálds. Á meðal flytjanda eru Kammerkór Suðurlands, Örlygur Benediktsson, Karen Dröfn Hafþórsdóttir ásamt fleirum.
Tvær helgar þ.e. 14.–15. og 21.–22. október verður dagskrá í Húsinu á Eyrarbakka kl. 14:30 sem nefnist „Sögur og söngur“. Þar les Ásta Kristrún kafla úr óútkominni bók sinni um formæður í fjóra ættliði. Þrjár hinna sögulegu kvenna ýmist bjuggu eða fæddust í Húsinu á 19. öld. Valgeir Guðjónsson leikur og syngur sín ljúfustu lög fyrir og eftir upplestur. Rauða húsið verður með sérstakt menningarkaffi að loknum viðburði.
Hermundur Guðsteinsson og Kolbrún Hulda Tryggvadóttir syngja íslensk og erlend sönglög við undirleik Jóns Bjarnasonar píanóleikara í Stokkseyrarkirkju sunnudaginn 2. október kl. 20.
Fimmtudaginn 26. október kl. 20:00 verða „Selfosstónar“ í Selfosskirkju. Þar verðurí tilefni af 70 ára afmæli Selfossbæjar rifjuð upp tónlistarsaga svæðisins með sérstaka áherslu á kóra- og tónlistarskólastarfið. Tónlistarstjóri er Jóhann Stefánsson. Fram koma m.a. Karlakór Selfoss, Jórukórinn, Kirkjukór Selfosskirkju og Lúðrasveit Selfoss. Heiðursgestir kvöldsins eru Ásgeir Sigurðsson og Jón Ingi Sigurmundsson.
Már Ingólfur og Þorsteinn Tryggvi Mássynir stýra Árvöku í Selfossbíói laugardaginn 18. nóvember kl. 16. Árvaka er menningarhátíð Selfossbæjar og var haldin fyrst árið 1972 þegar bærinn fagnaði 25 ára afmæli. Viðeigandi er við þau tímamót sem 70 ára afmælið er að líta til baka og skoða með augum dagsins í dag þá atburði og fólkið sem mótaði Selfossbæ. Þorsteinn og Már munu fara yfir sögu Selfoss frá brúarsmíði og jafnvel lengra aftur og til dagsins í dag. Stiklað verður á stóru um söguna og frásögn þeirra krydduð með innskotum og upprifjunum valinkunnra Selfyssinga á Selfossi æsku sinnar. Myndefni er frá Gunnari Sigurgeirssyni sem hefur safnað í sarpinn miklu magni myndefnis sem gefur skemmtilega og lifandi mynd af bæ í sífelldri þróun.
Frítt er inn á alla viðburði í menningarmánuðinum sem haldinn er á vegum íþrótta- og menningarnefndar Árborgar.