Gallerý Gimli á Stokkseyri stendur fyrir uppboði á jólapeysu sem prjónuð var í ár af þeim Ingibjörgu Ársælsdóttur, Jóhönnu Sveinsdóttur, Vilborgu Másdóttur og Þórdísi Sveinsdóttur. Þær eru hluti af átta konum sem reka gallerýið saman.
Jólapeysan er unnin þannig að hver kona fær hluta úr peysunni til þess að prjóna og ræður algjörlega litum og munstri sjálf. „Við fáum bara að vita stærð á peysunni, prjónastærð og lykkjufjölda. Svo er ein kona sem gerir eina ermi, önnur gerir hina, sú þriðja gerir bolinn og sú fjórða klárar. Við vitum ekkert hvernig þetta lítur út hjá hinum og bíða allir spenntir að sjá hver útkoman verður,“ segir Jóhanna Sveinsdóttir. Peysan er yfirleitt prjónuð í Large þar sem sú stærð er talin henta best.
Jólapeysugerð í gallerýinu byrjaði árið 2013. „Fyrst þegar þetta byrjaði var samkeppni til styrktar Barnaheilla sem konurnar tóku þátt í og fengu þær verðlaun fyrir fallegustu peysuna.Þær byrjuðu strax að prjóna peysuna með þessu fyrirkomulagi,“ segir Vilborg Másdóttir.
Þegar hætt var að taka þátt í keppninni hjá Barnaheillum ákváðu konurnar að halda áfram jólapeysugerðinni og styrkja önnur góð málefni.
Peysan hefur verið sett á uppboð á Facebook-síðu Gallerý Gimli. Lágmarksupphæð er 35 þúsund krónur og verður hægt að bjóða í peysuna til og með 15. desember. Ágóðinn rennur til björgunarsveitarinnar Bjargar á Eyrarbakka.