Það verður sannkölluð jólaveisla sunnudaginn 8. desember á Byggðasafni Árnesinga. Jólalegir lírukassatónar fylla sali gamla Hússins, fróðleg og hnyttin barnabókastund þar sem Stjörnu-Sævar og Hjalti Halldórsson stefna saman Grýlu gömlu og vísindunum og unglingakór Selfosskirkju flytur hugljúf jólalög, Ásthildur Magnúsdóttir sýnir gömul handtök tóvinnunnar og hver veit nema gestir fái að spreyta sig.
Gömlu jólatrén skarta sínu fegursta á jólasýningu safnsins. Jólasveinabrúðurnar fara á kreik og það er skemmtilegur fjölskylduleikur að reyna að finna alla sveinana. Jólaglugginn opnar hjá safninu í vikunni. Notalegur dagur í aðdraganda jóla í umhverfi þar sem hægt er að hrífast, fræðast, gleyma sér og eiga notalega stund á aðventunni.
Safnasvæðið mun iða af lífi og einkennast af alltumlykjandi jólaanda!
Kl. 13-17: Jólasýning þar sem gömlu jólatrén skarta sínu fegursta og jólasveinabrúðurnar fara á kreik. Björgvin Tómasson leikur á lírukassa yfir daginn.
Kl. 14:00: Ásthildur Magnúsdóttir sýnir gömul handtök tóvinnunnar fram eftir degi.
Kl. 15:00: Unglingakór Selfosskirkju flytur jólalög undir stjórn Edit Molnár.
Kl. 16:00: Stjörnu Sævar og Hjalti Halldórsson fjalla um himinhvolfið, kúk og mikilvægi þess að vekja ekki Grýlu.
Ókeypis aðgangur og öll velkomin!
Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkir jóladagskrá safnsins.