-11.1 C
Selfoss

Fyrstu skóflustungurnar teknar að einu stærsta vinnsluhúsi landsins

Vinsælast

Fyrstu skóflustungurnar að nýju vinnsluhúsi landeldisfyrirtækisins First Water voru teknar á Laxabraut 19 í Þorlákshöfn 26. nóvember sl. Amelía Ósk Hjálmarsdóttir stöðvarstjóri, Sigríður Birna Ingimundardóttir verkefnastjóri og Valgerður Friðriksdóttir mannauðsstjóri munduðu skóflurnar fyrir hönd fyrirtækisins, en á fjórðu skóflunni var Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS.

Stefnt er að því að vinnsluhúsið verði tekið í notkun haustið 2026 en heildargólfflötur þess verður alls 30.500 fermetrar. Full starfsemi mun vera í húsinu alla daga ársins og verður allur tæknibúnaður háþróaður og mjög vandaður.

Að sögn Valgerðar Friðriksdóttur mannauðsstjóra First Water verða um 115 manns við vinnslu í húsinu þegar starfsemin verður komin á fullt og er stefnt á að allur fiskur frá First Water fari þarna í gegn. Það skipti þau miklu máli að hafa sem mest af starfseminni í Þorlákshöfn og því sé þetta stórt skref fram á við. Hún segist hlakka mikið til að sjá húsið rísa og verða tekið í notkun.

Frá árinu 2029 er áætlað að 300 manns muni koma til með að starfa hjá fyrirtækinu. Heildarfjárfesting First Water í Þorlákshöfn er um 120 milljarðar króna.

„Við stefnum hátt og komumst þangað með því að vanda til verka og hafa óbilandi trú á verkefninu og löngun til að vinna það vel. Landeldi á svo mikið inni og við ætlum að gera allt okkar til að sýna fram á það“, segir Valgerður.

Nýjar fréttir