3.9 C
Selfoss

Ónýtt kerfi

Vinsælast

Lyftistöng fyrir samfélagið

Kona, vertu ekki fyrir!

Ónýtt kerfi

Sem gamalt kerfisbarn þá skipta kerfin sem grípa börnin okkar og unglinga mig ótrúlega miklu máli. Ég flakkaði sem unglingur á milli fósturheimila, langtímameðferðarheimila, Stuðla og BUGL og fékk því dýrmæta reynslu af þeim kerfum sem voru í boði fyrir 15 árum síðan. Þótt kerfin hafi verið langt í frá fullkomin á þeim tíma og margt sem mátti breyta og bæta þá voru þau þó skömminni skárri en það sem er í boði í dag. Eftir að hafa horft á Stuðlaþáttinn í Kveik um daginn þá lá mér eiginlega við gráti þegar ég komst að því að búið er að loka flestöllum úrræðum sem sáu um að grípa börn og unglinga í vanda.

Þegar ég var vistuð á Stuðlum fyrst fyrir rúmum 15 árum þá átti ég ekki heima þar. Þetta er ekki eitthvað sem mér fannst persónulega heldur var þetta eitthvað sem bæði starfsmenn Stuðla og starfsfólk barnaverndarnefndar voru sammála um. Strax fyrir rúmum 15 árum voru Stuðlar farnir að taka við einstaklingum sem vitað var að hefðu ekki not af þjónustunni sem þar var í boði af þeirri einföldu ástæðu að ekkert annað var í boði, úrræðaleysið var gífurlegt og er ennþá verra í dag.

Börn deyja á meðan þau bíða

En hver er ástæða þess að við erum komin á þennan stað? Mörgum meðferðarheimilum var lokað í kjölfar þess að upp komu á þeim hræðileg mál, misnotkun á börnum og ofbeldi svo eitthvað sé nefnt en það er þó engin afsökun fyrir því að ekkert komi í staðinn. Af hverju var eftirlit ekki aukið, starfsfólki og forstöðumönnum skipt út og starfsemin endurskoðuð? Hvernig leysir það nokkurn vanda að loka úrræðum án þess að nokkuð komi í staðinn? Viljayfirlýsingar og fögur loforð gera ekkert nema láta stjórnmálafólk líta tímabundið vel út á meðan börnin okkar og ungmenni eru bókstaflega að deyja á meðan þau bíða eftir lausn sinna mála.

Nú myndi einhver benda á að úrræði sem þessi kosti himinháar upphæðir en viljum við í alvöru vera samfélag sem metur líf barna og unglinga í krónutölum? Ég veit að svoleiðis samfélagi skammast ég mín fyrir að tilheyra. Fyrir þá sem horfa bara í krónur og aura þá vil ég segja að það kostar til lengri tíma miklu minna að hjálpa börnum og unglingum á fætur og kenna þeim að fóta sig í lífinu heldur en að vista þau á geðdeildum og fangelsum þegar á fullorðinsárin er komið með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið, dómskerfið og félagsmálakerfið. Þar að segja ef þessi börn yfir höfuð lifa það af að vera ekki hjálpað.

Ekki hægt að bíða lengur

Það er auðvitað ekki lausn að senda alla á meðferðarheimili því mikið af þessum einstaklingum er hægt að hjálpa heima við ef gripið er inn í nógu snemma. Ég er eitt af þessum börnum sem hefði notið góðs af því að fá þjónustu og leiðsögn heim en það var á þeim tíma ekki í boði þar sem ég bjó því þá, eins og nú, var flestöll þjónusta einungis í boði á stærri stöðum og mikið af þjónustu einungis í boði á höfuðborgarsvæðinu. Fólk á að geta fengið fjölskylduþjónustu heim sama hvar það kýs að búa á landinu, það eru mannréttindi.

Sama hvernig stjórnvöld ákveða að tækla þetta úrræðaleysi þá þarf það að gerast strax! Börnin okkar geta ekki beðið lengur og eiga heldur alls ekki að þurfa þess. Viljayfirlýsingar og fögur loforð duga ekki lengur! Þess vegna þarf að nálgast þessi mál með öðrum hætti – kjóstu öðruvísi, kjóstu Pírata.

Linda Björg Arnheiðardóttir,

3. sæti Pírata í Suðurkjördæmi.

Nýjar fréttir