Þann 20. nóvember ár hvert er degi mannréttinda barna fagnað víða um heim en á þeim degi árið 1989 var barnasáttmálinn samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Á Íslandi var barnasáttmálinn undirritaður á Alþingi árið 1990 og lögfestur árið 2013. Í tilefni af degi mannréttinda barna langar okkur í leikskólanum Hulduheimum að segja ykkur hvernig við vinnum markvisst með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Einu sinni í mánuði er sérstök samverustund á hverri deild helguð barnasáttmálanum þar sem notast er við „heimatilbúið” námsefni. Á eldri deildum er það brúðan Sæli sem kemur í heimsókn og á yngri deildum brúðan Engilráð sem er fjörlegur andarungi. Með hjálp brúðanna kynnum við börnum helstu réttindi þeirra og ræðum jafnframt um virðingu fyrir öðrum þrátt fyrir ólíkan uppruna og/eða skoðanir en vináttan er rauði þráðurinn í stundunum. Við syngjum söngva um vináttu og stundum eru kenndir nýir söngvar sem tengjast einstaka málefni. Á hverri deild er veggspjald þar sem barnasáttmálinn er uppsettur á myndrænan hátt og geta börnin því hæglega skoðað myndirnar og hugsað um réttindi sín. Nokkur börn á eldri deild í Hulduheimum voru spurð út í barnasáttmálann í tilefni af þessari frétt og þau vildu koma því á framfæri að þau hefðu rétt á að segja sína skoðun og hvernig þeim líður við foreldra sína og aðra fullorðna. Eftir svolitlar vangaveltur sögðu þau: „Við ráðum yfir herberginu okkar og hvernig við viljum hafa herbergin“.
Hægt er að sjá nánari upplýsingar á www.barnasattmali.is
Sólveig Dögg Larsen,
Aðstoðarleikskólastjóri á Hulduheimum.