Hvenær sem ég ek yfir Borgarfjarðarbrúna flauta ég þrisvar. Gert til heiðurs Halldóri E. Sigurðssyni samgönguráðherra sem stóð að þessari miklu samgöngubót á sínum tíma. Nú hefur Sigurður Ingi Jóhannsson tekið fyrstu skóflustunguna að nýrri brú á Ölfusá og í framtíðinni munum við flauta þrisvar af þakklæti því ekkert mannvirki er jafn mikilvægt fyrir Selfoss og samgöngurnar hér á Suðurlandi. Með þessari samþykkt Alþingis og skóflustungunni eru allar deilur að baki um tittlingaskít og aukaatriði og vitleysu. Skógræktarmenn Selfoss gerðu ráð fyrir þessari brú þarna fyrir fimmtíu árum, trjám var ekki plantað í vegstæðið væntanlega. Á síðustu misserum hafa þrasgjarnir menn lagst í mikla gagnrýni á brúna og brúarstæðið sem hefði getað tafið þessa framkvæmd um aldarfjórðung í viðbót. Hafðu heila þökk Sigurður Ingi Jóhannsson, til þín er nú hugsað hlýtt af bökkum Ölfusár, og reyndar úr kjördæminu öllu.
Stóra-Hraun mikið framtíðarspor
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur klárað annað stórt mál fyrir héraðið okkar. Byggingaráform eru komin í farveg, nýtt fangelsi mun rísa að Stóra-Hrauni og þar með er miklu deilumáli lokið. Hafðu þökk fyrir þinn kraft Guðrún, ég óttaðist að valdamenn færu með fangelsið til Reykjavíkur. Það er mjög brýnt að byggja nýtt fangelsi í takt við nýja tíma svo bæði þeir þjáðu og þeir sem þar starfa búi við mannsæmandi aðstöðu.
Sunnlendingar! Nú hafa oddvitar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu komið til framkvæmda tveimur mikilvægum verkefnum sem varða okkur öll. Mér er það til efs að nokkurn tíma hafi önnur eins opinber fjárfesting átt sér stað hér ef frá eru dregnar virkjanir. Fjárfesting upp á 30 milljarða mun fara af stað hér á næsta ári. Verkefnin eru stór og brýn, þau þola enga bið.
Sýnum nú í verki að við kunnum að meta flokka og stjórnmálamenn sem standa vörð um hagsmuni Suðurlands.
Guðni Ágústsson.