-8.1 C
Selfoss

Efndi til tónleika til þess að efla menningu og listir fyrir börn

Vinsælast

Drungalegir tónar fóru fram sunnudaginn 10. nóvember sl. í menningarsalnum á Hellu. Svala Norðdahl var skipuleggjandi tónleikanna. Hún segist vilja efla menningu og listir barna og ungmenna.

„Ég hef haft áhuga á sviðslistum frá því ég man eftir mér, hef farið í leikhús og tónleika með foreldrum mínum frá því ég var smákrakki. Ég elskaði að búa til leikrit og flytja tónlist fyrir fjölskylduna og fannst enn skemmtilegra að stunda þetta í skólanum. Ég fékk ekki mikla hvatningu í mínum skóla og var ákveðin í að sanna mig sem sviðslistamann eftir að ég fór að nálgast unglingsárin. Það gekk ekkert rosalega vel í fyrstu þar sem ekki var mikill áhugi fyrir listgreinum í litla samfélaginu mínu. Ég ákvað að gefast ekki upp og reyna að glæða samfélagið af list og gerði alls konar tilraunir til að búa til tækifæri fyrir ungt fólk til að stunda sviðslistir. Þegar það gekk ekki ákvað ég að best væri að byrja á börnunum því þau eru enn svo móttækileg og fordómalaus. Ég hef haldið nokkur leiklistarnámskeið sem hafa gengið mjög vel. Svo kom að því að gera það sem mig hefur dreymt um: að skapa minn eigin viðburð.“

Þegar Svala sá auglýsingu á Facebook um að hægt væri að sækja um styrk í menningarsjóð hjá Rangarþingi ytra hugsaði hún með sér að þetta væri tækifæri til að láta draum sinn rætast og að uppfylla ósk sína um að reyna að efla menningu og listir fyrir börn og ungmenni í sveitinni. „Ég sótti um styrk og fékk hann og er mjög þakklát fyrir þennan frábæra stuðning og hvatningu frá snillingunum sem eru nú við völd í Rangárþingi ytra,“ segir Svala.

Nú var bara að hefjast handa og láta hugmyndaflugið fara á flug. Hugmyndin var að gera eitthvað þar sem öll fjölskyldan gæti skemmt sér saman og langaði Svölu að hafa eitthvað þema.

„Ég vildi ekki fara í jólatónleikaslaginn en datt í hug að það væri svolítið óplægður akur í hrekkjavökubransanum svo ég sló til og bjó til viðburð sem átti að vera drungalegur en ekki hræðilegur svo allir gætu haft gaman af,“ tekur Svala fram.

Svo var að þetta endaði sem „Drungalegir tónar“ með tónlist sem passaði við þemað. Vonda fólkið í hinum ýmsu sögum, leikritum og bíómyndum urðu fyrir valinu. Þá gafst tækifæri til að segja stuttar sögur í kringum hvert lag, með því gátu börnin notað sitt hugmyndaflug til að fara í ferðalag með flytjendum.

Ljósmynd: Aðsend.

Svala stóð ekki ein fyrir tónleikunum heldur fékk hún gott fólk með mér í þetta verkefni og það var ekki erfitt að hennar sögn.

„Ég hafði samband við efnilegt tónlistar- og leiklistarfólk á Suðurlandi og ekki stóð á svörum. Allir voru til í verkefnið sem endaði með meiri háttar skemmtilegum tónleikum þar sem gestir á öllum aldri (frá 6 mánaða upp í 85 ára) skemmtu sér konunglega saman.“

Ljósmynd: Aðsend.

Listafólkið sem gerði þennan viðburð að veruleika eru; Arilíus Smári Orrason, Sólmundur Ingi Símonarson, Gisella Hannesdóttir, Óskar Snorri Óskarsson, Oddur Helgi Ólafsson, Hulda Guðbjörg Hannesdóttir, Hekla Norðdahl, Hanna Tara Björnsdóttir og Sigurður Mattías Sigurðarson, hljóðið sá svo Skafti Flosason um.

Ljósmynd: Aðsend.

„Þetta hefði aldrei getað orðið að veruleika nema með þeirri aðstoð sem ég fékk hjá fallega sveitarfélaginu mínu og frábæra unga listafólkinu á Suðurlandi, það er mín einlæg von að þetta verði til þess að auka á menningarsamfélagið okkar sem fer nú bara vaxandi,“ segir Svala að lokum.

 

Nýjar fréttir