-8.9 C
Selfoss

Spaghetti Carbonara sem svíkur engan

Vinsælast

Hrefna Ósk Jónsdóttir er matgæðingur vikunnar.

Nú er langþráður draumur loksins orðinn að veruleika, að fá að vera matgæðingur vikunnar hjá Dagskránni.

Þeir sem þekkja mig vita að ég er mjög matvönd en Spaghetti Carbonara er einn af mínum uppáhaldsréttum. Hér er uppskrift sem ætti ekki að svíkja neinn:

Spaghetti Carbonara

350 g spaghetti

300 g beikon, skorið smátt

1/2 laukur, hakkaður

2 hvítlauksrif, hökkuð (ég set alltaf aðeins meira)

3 egg

3/4 bolli fínrifinn parmesan

3/4 bolli rjómi

Salt og vel af svörtum pipar

Aðferð

Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu.

Á meðan pastað sýður er beikonið steikt þar til það byrjar að verða stökkt. Takið beikonið af pönnunni og setjið það á eldhúspappír. Hellið fitunni af pönnunni en skolið hana ekki. Setjið pönnuna aftur á helluna, lækkið hitann í miðlungslágann og steikið lauk og hvítlauk þar til mjúkt og komið með gylltan lit. Leggið til hliðar.

Hrærið saman eggjum, fínrifnum parmesan, rjóma, salti og pipar í skál og leggið til hliðar.

Þegar pastað er tilbúið er vatninu hellt af (geymið þó 1-2 dl af pastavatninu) og pastað sett aftur í pottinn. Hellið parmesaneggjablöndunni hægt út í og hrærið stöðugt í pastanu á meðan. Sósan á að hjúpa pastað. Hrærið smá af pastavatninu saman við. Bætið beikoninu og lauknum saman við og hrærið öllu saman. Berið fram með ferskum parmesan og meira af pipar.

Eftir spaghettíið er mjög gott að fá sér eftirrétt. Þessi oreo-ostakaka slær alltaf í gegn og er hún einn af mínum uppáhaldseftirréttum

Oreo-ostakaka

1 pakki Royal vanillubúðingur

1 bolli mjólk

1 tsk vanilludropar

1 peli rjómi (2,5 dl.)

200 g rjómaostur

1 bolli flórsykur

24 oreo-kexkökur (ég notaði 32, sem eru 2 kassar)

– Þeytið saman búðingsduftið, mjólkina og vanilludropana og setjið í ísskáp í 5 mínútur.

– Hrærið saman flórsykri og rjómaosti í annarri skál.

– Þeytið rjómann.

Blandið þessu öllu saman í eina skál.

Myljið oreokexið (í matvinnsluvél eða með frjálsri aðferð!).

Setjið til skiptis í skál oreokex og ostakökublönduna, endið á kexinu. Geymið í frysti og takið út 1,5 klst. áður en kakan er borin fram.

Ég ætla að skora á góðvin minn og samstarfsfélaga, Gunnar Ásgeir Halldórsson, að vera næsti matgæðingur. Hann töfrar örugglega fram einhvern dýrindis rétt.

Nýjar fréttir