Við erum flest íbúar Suðurkjördæmis sammála um að það megi bæta grunnþjónustu heilsugæslunnar. Víða í kjördæminu, eða jafnvel alls staðar, er heilsugæslan vanmönnuð af annars frábæru fagfólki sem er með allt of margt á sinni könnu. Fastráðnir læknar eru varla til og ef svo er sinna þeir allt of stóru svæði og of mörgum tilfellum. Úr þessu verður að bæta. Það er nefnilega mun dýrari kostur að fara ítrekað á bráðavaktina til að fá almenna læknisþjónustu. Það er eðlilegt þegar læknar stoppa stutt við að þeir kynnist síður íbúum sem getur haft þau áhrif að íbúar verði óöruggir gagnvart þjónustu og minni líkur á að traust myndist milli heimilislæknis og íbúa og það er slæmt. Við þurfum að tryggja öllum læknum staðaruppbót, viðunandi starfsaðstöðu og húsnæði. Einnig ætti að horfa til þess að virkja 28. grein laga Menntasjóðs námsmanna þar sem heimilt er að veita ívilnanir á námslánum til þeirra starfstétta sem skortur er á úti á landsbyggðum.
Það þarf að auka fjarheilbrigðisþjónustu enda slíkt raunhæfur kostur nú á tímum tækninnar og þannig gæta að félagslegum grunni þjónustu og jöfnuði fyrir okkur öll. Við verðum einnig að tryggja reglulegar komur sérfræðinga út á land til að draga úr ferðatíma fólks og tryggja þannig betri og öruggari búsetuskilyrði á landsbyggðinni. Íbúum í Suðurkjördæmi fjölgar stöðugt, hér fara einnig langflestir ferðamenn um með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið og það verður að taka tillit til þess þegar tölur og tækifæri eru rædd. Það má ekki gerast að opinbera heilbrigðiskerfið sé svo svelt að rými skapist fyrir einkavæðingu sem gerir ekkert nema að auka á ójöfnuð og valda áður óþekktri stéttaskiptingu hérlendis. Frjálshyggjan býður nefnilega handan við hornið eftir hverri smugu til að einkavæða og græða.
Við þurfum að standa vörð um og stuðla að uppbyggingu öflugrar opinberrar heilsugæslu, efla þjónustu heimilislækna og fjölga stöðugildum. Um leið verðum við að verja almenna heilbrigðiskerfið gegn einkavæðingu með öllum ráðum. Heilsugæsla rekin í ágóðaskyni er ekki góður kostur. Rekstrarform skiptir nefnilega miklu máli. Þar sem heilbrigðiskerfi ná hvað mestum árangri er um að ræða öflug opinber heilbrigðiskerfi. Það er auk þessa mikilvægt að tryggja sanngjarna skiptingu fjármuna á landsvísu til reksturs og uppbyggingar heilsugæslunnar, mönnun er vissulega stóra viðfangsefnið. Höfum í huga að einkarekstrarformið fjölgar ekki starfsfólki heldur sveltir opinberar stofnanir. Við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði stöndum einhuga með öflugu opinberu heilbrigðiskerfi fyrir okkur öll.
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,
oddviti Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.