8. nóvember er haldinn hátíðlegur ár hvert af því að sá dagur er tileinkaður baráttunni gegn einelti. Dagurinn hefur verið kallaður dagur gegn einelti. Markmið hans er að minna okkur á mikilvægi þess að sporna við og stöðva einelti þegar við verðum þess vör, en einnig að efna til umræðu, fræðslu og viðburða og hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu.
Á degi gegn einelti bauð Heimili og skóli til athafnar í Tækniskólanum í Sjómannahúsinu. Aðaltilefnið var afhending hvatningarverðlauna til þess einstaklings eða hóps sem þótti hafa borið af í baráttunni gegn einelti. Skólameistari Tækniskólans, Hildur Ingvarsdóttir, stýrði dagskrá, en ávörp fluttu Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra, Sigurður Sigurðsson framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, Sigrún Garcia Thorarensen, formaður fagráðs eineltismála og Ali Mukhtar Ahmed nemandi á íslenskubraut Tækniskólans. Fjölmargar tilnefningar bárust en það var Freyja Rós Haraldsdóttir, kennari við Menntaskólann á Laugarvatni sem hlaut verðlaunin að þessu sinni. Henni var þakkað vel fyrir hennar framlag til baráttunnar gegn einelti.