1.7 C
Selfoss

Unnur Rán leiðir lista Sósíalistaflokksins í Suðurkjördæmi

Vinsælast

Félagsfundur Sósíalistaflokksins samþykkti í gærkvöld oddvita listans í Suðurkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. Er það Unnur Rán Reynisdóttir, hársnyrtir og hársnyrtikennari sem mun leiða listann. Þá var listinn fyrir Suðurkjördæmi einnig samþykktur í heild sinni.

Unnur Rán er fjögurra barna móðir, búsett í Reykjanesbæ en uppalin á Flúðum í Hrunamannahreppi. Hún vinnur á umhverfisvottuðu hársnyrtistofunni Zenz Reykjavík og hefur einnig starfað innan verkalýðshreyfingarinnar á árum áður og unnið af krafti í þágu umhverfis- og vinnuverndarmála á þeim vettvangi, setið í stjórn Félags Hársnyrtisveina og ASÍ-Ung. Hún berst gegn ójöfnuði í samfélaginu. Henni eru sérstaklega hugleikin málefni barna og jaðarsettra hópa í samfélaginu, þar sem aukinn ójöfnuður leiðir af sér enn fleiri vandamál.

„Engin manneskja á að þurfa að leita á náðir hjálparstofnana til að geta gefið börnum sínum að borða, til að geta haldið jól eða til þess að börn geti tekið þátt í frístundum. Þau þungu skref á engin manneskja að þurfa að taka, heldur ættum við öll að geta lifað mannsæmandi lífi. Það að taka þátt í samfélaginu á ekki að einskorðast við stétt, uppruna, heilsu eða fjárhag. Hvort sem um ræðir börn eða fullorðna þá eigum við öll að geta fengið að blómstra,“ segir Unnur, oftast kölluð Rán.

Hún segir að uppræta þurfi ójöfnuðinn í stað þess að plástra það sem ekki virkar. „Þrátt fyrir að þakka megi góðgerðarstofnunum þeirra fallega starf þá ættum við ekki að neyðast til að senda fólki þessa bónarleið sem er eingöngu tilkomin vegna misskiptingar í samfélaginu.“

„Núverandi ölmusukerfi er til þess fallið að þau sem eiga fjármagnið nú þegar geta klappað sjálfum sér á bakið þegar þau gera hin miklu góðverk að styrkja þau sem minna eiga. Þetta er kapítalisminn í sinni tærustu mynd og hann leiðir til enn frekari vandamála.“

Listi Sósíalista í Suðurkjördæmi
1. Unnur Rán Reynisdóttir, 41 árs, hársnyrtimeistari/kennari
2. Hallfríður Þórarinsdóttir, 64 ára, framkvæmdastjóri
3. Arnar Páll Gunnlaugsson 35 ára bifvélavirki
4. Þórdís Bjarnleifsdóttir, 53 ára, nemi
5. Sigurrós Eggertsdóttir, 27 ára, háskólanemi/fjöllistakona
6. Ægir Máni Bjarnason, 31 árs, félagsliði/listamaður
7. Ólafur Högni Ólafsson 47 ára, fyrrverandi fangavörður
8. Elínborg Steinunnardóttir/Björnsdóttir, 51 árs, bráðatæknir/öryrki
9. Þórbergur Torfason, 70 ára, ferðaþjónustubóndi
10. Vania Cristina Leite Lopes 41 árs, félagsliði
11. Bjarni Þór Þórarinsson, 67 ára, ráðgjafi
12. Arngrímur Jónsson, 64 ára, sjómaður
13. Kári Jónsson, 65 ára, verkamaður/öryrki
14. Magnús Halldórsson, 70 ára, skáld
15. Hildur Vera Sæmundsdóttir, 63 ára, sjálfstætt starfandi
16. Pawel Adam Lopatka, 40 ára, landvörður
17. Stefán Helgi Helgason, 65 ára, öryrki
18. Guðmundur Jón Erlendsson, 59 ára, bílstjóri/öryrki
19. Þórir Hans Svarsson, 58 ára
20. Gunnar Þór Jónsson, 77 ára

Nýjar fréttir