1.7 C
Selfoss

Forvarnardagurinn í Árborg

Vinsælast

Forvarnardagurinn var haldinn um land allt miðvikudaginn 2. október og að venju stóð forvarnarhópur Árborgar fyrir glæsilegri dagskrá eins og undanfarin ár. Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Landlæknisembættið, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Bandalag íslenskra skáta. Öllum 9. bekkjum grunnskólanna í Árborg er boðið upp á sameiginlega dagskrá sem unnin var í samstarfi Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri (BES), Sunnulækjarskóla, Vallaskóla, Umf. Selfoss og félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz.

Dagskráin hófst með setningu á Hótel Selfoss þar sem Ellý Tómasdóttir, forvarnarfulltrúi Árborgar ávarpaði ungmennin. Guðmundur Bjarni Brynjólfsson, íþróttamaður kom og hvatti ungmennin til að fara út fyrir þægindarammann, lifa heilbrigðu lífi og elta draumana sína. Í framhaldinu var nemendum skipt upp í hópa og hver hópur fór á milli sex mismunandi stöðva þar sem boðið var upp á kynningar og fræðslu á fjölbreyttum efnum sem allar höfðu mikið og gott forvarnargildi.

Nemendur áttu opið samtal við Lögregluna um ofbeldi, sakhæfi og umferðaröryggi. Fulltrúi frá sjúkraflutningum var með fræðslu um áverka og afleiðingar af líkamlegu ofbeldi og var félagsmiðstöðin Zelsíuz með verkefnavinnu um samskipti. Björgunarsveit Árborgar var með kynningu á starfseminni sinni og Umf. Selfoss var með kynningu á Pílufélagi Selfoss. Einnig fengu þau kynninu á Crossfit Selfoss og fengu að spreyta sig á nokkrum æfingum. Að lokinni dagskrá var nemendum boðið upp á grillaðar pylsur við Tíbrá.

Ljósmynd: Aðsend.

Tilgangur dagsins var að fræða og efla samstöðu milli unglinganna og styrkja þá í að taka upplýstar ákvarðanir í framtíðinni. Við erum virkilega ánægð með hversu vel tókst til og vill forvarnarhópurinn koma á framfæri þakklæti til starfsmanna og allra þeirra sem stóðu að deginum með þeim.

Tökum höndum saman

Um kvöldið var haldinn opinn fræðslufundur með foreldrum og fjölskyldum eldri bekkinga í grunnskólum Árborgar undir yfirskriftinni „Tökum höndum saman“. Markmið kvöldsins var að skapa uppbyggilegar samræður og vekja okkur til umhugsunar hvernig við getum í sameiningu stutt við vellíðan og öryggi barna í Árborg. Dagskrá kvöldsins innihélt stutt erindi frá aðilum í nærsamfélaginu sem deildu þekkingu sinni og reynslu.

Heiða Ösp Kristjánsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hélt erindi um þjónustu við börn og barnafjölskyldur í Sveitarfélaginu Árborg. Þar fór hún yfir uppbyggingu og með hvaða hætti fjölskyldusvið starfar og ræddi um verkfæri fyrir foreldra þar sem meðal annars var farið inn á mismunandi birtingarmyndir ofbeldis.

Arndís Soffía Sigurðardóttir, aðallögfræðingur hjá Lögreglustjóranum á Suðurlandi, flutti kynningu á Öruggara Suðurlandi og sagði frá starfi samfélagslöggunnar. Ellý Tómasdóttir frá frístundaþjónustu Árborgar flutti góða kynningu á forvarnarstarfi og forvarnarteymum Árborgar.

Valdimar Þór Svavarsson, framkvæmdastjóri Samhjálpar og eigandi og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, flutti erindi með sterkum skilaboðum um hlutverk og ábyrgð foreldra. Í lokin spunnust góðar umræður og fengu gestir einnig tækifæri til að deila hugmyndum sínum og tillögum að aðgerðum.

Forvarnarteymi Árborgar ásamt starfsfólki þakkar öllum þeim sem komu að deginum fyrir sitt framlag. Samstarf með foreldrum um að taka höndum saman börnum okkar til heilla er mikilvægt og má líta á þennan fund sem upphaf að mikilvægu og þörfu samtali sveitarfélagsins og foreldra.

Nýjar fréttir