-3.2 C
Selfoss

Hreindýraborgari með sultuðum rauðlauk

Vinsælast

Lóreley Sigurjónsdóttir er matgæðingur vikunnar

Ég vil byrja á að þakka mínum vin fyrir áskorunina og einnig segja að matarást á Tryggva hef ég haft í mörg ár og alltaf gott að koma í hans hús í mat og drykk.

Ég hugsaði aðeins hvað ég ætti að koma með og fannst svo vel við hæfi að koma með hreindýraborgara með sultuðum rauðlauk og piparsósu sem slær alltaf í gegn þegar ég býð uppá þá, og þar sem að aðventan er á næsta leiti þá er þetta smá jóló.

Einnig er uppskriftin frábær bara með nautahakki fyrir þá sem ekki vilja hreindýrakjötið.

Hreindýraborgarar 

(mæli með að hafa þá 150-200 gr )

600gr hreindýrahakk

400gr nautahakk

1/2 búnt steinselja skorin smátt niður

2 piparostur rifinn

1 mexico ostur rifinn

1 hvítlaukur skorinn smátt eða maukaður

2 tsk salt

2 tsk pipar

2 tsk villibráðakrydd

2 egg

Allt sett saman í skál og blandað vel saman og vigtað í þá þyngd sem þú vilt hafa þinn borgara (mæli með 150-200 gramma), mótað í hamborgarajárni eða bara höndunum smass style.

Steikt á pönnu eða skellt á grillið.

Sultaður rauðlaukur 

2 stk rauðlaukur afhýddir og skornir þunnt niður

1/2 dl balsamik

2 msk hunang

1 msk olía

1 msk sykur

1 tsk nýmalaður pipar

Allt sett í pott og látið sjóða á meðalhita í 45 mín.

Passið að hræra reglulega í og láta ekki brenna við, sérstaklega í lokin.

Kælið vel og sett í krukku með loki.

Piparostasósa 

1 piparostur

2,5 dl rjómi

1 grænmetisteningur

Salt og pipar

Allt sett í pott og látið blandast vel saman.

Þessi er góð heit og köld á borgarann.

Einnig er hægt að kaupa kaldar sósur í öllum búðum sem eru fínar lika .

Meðlæti á borgarann er svolítið eftir smekk. Mér finnst best að vera ekkert að flækja þetta með of miklu og leyfa kjötinu að njóta sín .

Góð salatblanda og sultaður rauðlaukur er fullkomið með 🙂

Verði ykkur að góðu.

Ég ætla að skora á vin minn Jóhannes Bjarma Skarphéðinsson. Ég veit að hann á eftir að koma með eitthvað frábært þar sem að hann er mikill matgæðingur og leynir á sér í eldhúsinu.

Nýjar fréttir