Ég veit svo sem ekkert hvað ég er að vilja upp á dekk, skrifandi hér einhver skilaboð til Selfyssinga og nærsveitunga. Ég er náttúrulega bara austan af Héraði og þið þurfið sjálfsagt ekkert á því að halda að ég sé eitthvað að segja ykkur til. En ég lærði nú samt í gamla daga orðtakið „glöggt er gests augað” og það er þess vegna sem ég leyfi mér að segja ykkur svolítið. Þið vitið þetta kannski en ef það hefur farið fram hjá ykkur skal ég segja ykkur það. Þið eigið frábært leikfélag.
Ég lagði nefnilega land undir fót á föstudag og sá, með mínum gests augum báðum, frumsýningu Leikfélags Selfoss á leikverkinu Listin að lifa. Verkið er sýnt í Litla leikhúsinu við Sigtún, þar sem leikfélagið ykkar á sér fallegt heimili með mikla sál. Sýningin var hreint út sagt frábær. Leikhópurinn lék af fagmennsku og metnaði, öll umgjörð var til fyrirmyndar og leikverkið sjálft allt í senn fyndið og hjartnæmt.
Gott leikfélag er eitt af því sem getur sameinað heilu samfélögin. Leikhópurinn sem nú er á fjölunum er blanda af ungu fólki og eldra, rótgrónum Árnesingum og aðfluttum, sem sameinast í því að búa til list fyrir ykkur sem þarna búið. Ég hvet ykkur til að nýta tækifærið og njóta fyrsta flokks menningar í heimabyggð. Sýningar verða ekki margar, svo ekki láta það henda ykkur að þurfa að segja að þið hafið ætlað að fara, en bara misst af tækifærinu. Skellið ykkur bara sem fyrst. Ekki hika, þið verðið ekki svikin af því.
Stefán Bogi Sveinsson,
Austfirðingur og áhugaleikari