Jasmina Vajzović Crnac, stjórnmálafræðingur í Reykjanesbæ, gefur kost á sér í 1. sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.
„Ég er reiðubúin að leiða lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi og vinna með fólki að málefnum sem ég brenn fyrir á sviði mannréttinda, efnahags, atvinnulífs, jafnréttis, velferðar og menntunar.“
Jasmina kemur upphaflega frá Bosníu og Hersegóvínu og varð flóttamaður á meðan stríðið í Bosníu stóð yfir. Hún flutti síðan til Íslands árið 1996 sem innflytjandi. „Ég veit að mín rödd og mín persónuleg reynsla sem barn á flótta og innflytjandi frá landi með marga ólíka þjóðfélagshópa muni vera dýrmæt á Alþingi Íslendinga.“
Jasmina er stjórnmálafræðingur að mennt með diplómu í opinberri stjórnsýslu ásamt því að vera eigandi IZO ráðgjafar sem veitir ráðgjöf og fræðslu þegar kemur að innflytjendum og flóttafólki. Hún starfar við að upplýsa, fræða og veita ráðgjöf bæði fyrirtækjum í atvinnulífinu, stofnunum ríkis og sveitafélaga, félagasamtökum o.fl. „Ég er mikill leiðtogi í mér og ég er óhrædd við að takast á við erfið mál. Síðast starfaði ég sem leiðtogi Alþjóðateymis Reykjavíkurborgar þar sem ég var með yfir 60 starfsmenn í vinnu og veitti og þróaði þjónustu við flóttafólk. Ég hef tekið þátt í stjórnmálum og hef setið sem varabæjarfulltrúi í sveitastjórn Reykjanesbæjar. Ég hef sinnt mörgum trúnaðarstörfum þar og setið í stjórnum og nefndum á vegum sveitarfélagsins í tvö kjörtímabil.“ Jafnframt hefur hún sinnt trúnaðarstörfum stjórnmálaflokks, bæði í sveitarfélaginu, svæðisfélaginu og á landsvísu. „Ég hef staðið í baráttu fyrir opnara samfélagi þar sem kraftar okkar allra geta fengið að blómstra óháð þjóðerni, uppruna, fækkunar, kyni og framvegis. Ég trúi á fjölbreytileika og rétt einstaklings. Ég trúi staðfastlega á hlutverk og gildi Viðreisnar sem er Evrópusinnaður, frjálslyndur og einkaframtakssinnaður flokkur og er fús til að leggja fram færni mína, þekkingu og eldmóð til að auka enn frekar áhrif og umfang flokksins okkar. Með því að gefa kost á mér í fyrsta sæti í Suðurkjördæmi er ég staðráðin og mjög metnaðarfull að starfa af heilindum með inngildandi og stefnumótandi sýn til að styðja við árangur flokksins.“