-10.3 C
Selfoss

Hamar úr leik eftir tap gegn VC Limax

Vinsælast

Hamarsmenn eru úr leik í áskorendakeppni evrópska blaksambandsins eftir tap gegn VC Limax frá Hollandi í gærkvöld.

Hamarsmenn töpuðu fyrri leiknum ytra 3-0 og það var því á brattann að sækja fyrir heimamenn. Hamarsmenn börðust þó hetjulega og voru allar hrinurnar jafnar og spennandi og munaði minnstu að Hamar næði að knýja fram oddahrinu.

3-1 tap var þó niðurstaðan eftir frábæran blakleik og Hamarsmenn geta vel við unað eftir frumraun sína í áskorendakeppninni.

Fyrsta hrina leiksins var jöfn og spennandi en VC Limax var þó með frumkvæðið allan tímann og vann hrinuna að lokum 22-25.

Hamar byrjaði aðra hrinu betur en tapaði forystunni um miðja hrinuna, jafnaði svo aftur 19-19 og 20-20. Gestirnir áttu svo lokasprettinn og unnu hrinuna 25-20.

Hamarsmenn byrjuðu þriðju hrinuna einnig betur og komust m.a. í 6-2. Hollendingarnir komust svo yfir 17-16 en Hamarsmenn gáfust ekki upp og jöfnuðu 22-22 og knúðu svo fram 23-25 sigur.

Aftur byrjuðu Hamarsmenn betur og höfðu frumkvæðið framan af fjórðu hrinunni. Um miðbik hennar snérist hún gestunum í vil en þó munaði aldrei meira en tveimur stigum á liðunum og fór svo að lokum að Limax vann hrinuna 25-23 og leikinn þar með 3-1 og eru þar með komnir áfram í næstu umferð keppninnar.

Nýjar fréttir