Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna virkjunarleyfis sem Orkustofnun veitti Landsvirkjun vegna Búrfellslundar og telur sveitarfélagið skorta kæruheimild.
Haraldur Þór Jónsson oddviti sveitarfélagsins segir á mbl.is að þessi niðurstaða komi á óvart og valdi vonbrigðum. Að mörgu leyti sé nefndin að segja að vilji sveitarfélagið fá skorið úr málinu þurfi að gera það fyrir dómstólum. Hann segir að sveitarstjórnin muni ræða málið á næstu dögum en líklega verði beðið niðurstöðu í máli Náttúrugriða, sem einnig kærðu virkjunarleyfið til úrskurðarnefndarinnar.
Nefndin hafnaði einnig kröfu Náttúrugriða um að framkvæmdir við vegagerð og uppsetningu vinnubúða við Vaðöldu yrðu stöðvaðar á meðan kæra Náttúrugriða vegna virkjanaleyfisins væri til meðferðar hjá nefndinni.
Úrskurðarnefndin tók ekki efnislega afstöðu í málinu, heldur vísaði til þess að engir verulegir einstaklingsbundnir hagsmunir væru undir og vísaði kærunni frá.