Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs Hveragerðisbæjar, hefur óskað eftir leyfi frá bæjarstjórn af persónulegum ástæðum frá 8. október 2024 til 11. júní 2025. Kemur þetta fram í nýrri fundargerð bæjarstjórnar. Jóhanna var í fyrsta sæti Framsóknarflokksins í síðustu sveitastjórnarkosningum og hefur setið í meirihluta bæjarstjórnar síðan. Andri Helgason er fyrsti varamaður inn af B-lista og Lóreley Sigurjónsdóttir annar. Þau gefa ekki kost á sér að taka sæti í bæjarstjórn og bæjarráði. Bæjarstjórn samþykkti á fundinum að Thelma Rún Runólfsdóttir verði bæjarfulltrúi í stað Jóhönnu Ýrar Jóhannsdóttur.
Í bæjarráð muni setjast sem aðalmaður og varaformaður Halldór Benjamín Hreinsson og mun Thelma Rún Runólfsdóttir koma inn sem varamaður í bæjarráð í stað Halldórs.