Bjórhátíð Ölverk fór fram um helgina í Hveragerði. Hátt í 3000 manns létu sjá sig. Framleiðendur og vörumerki voru 32 á hátíðinni í ár, af öllum stærðum og gerðum og komu þau alls staðar af á landinu. Hátíðin gekk vonum framar.
Í skýjunum með helgina
„Í einu orði sagt gekk frábærlega og erum við ennþá í skýjunum með þessa helgi. Það er ekki sjálfsagt að það sé svo gott sem uppselt á hátíð sem þessa og þess vegna erum við afar hamingjusöm og þakklát fyrir þessar frábæru móttökur sem bjórhátíð Ölverk fékk núna um síðastliðna helgi. Þetta var í fimmta sinn sem við höldum þessa bjórhátíð, en við héldum hana fyrst árið 2019 og er hún alltaf fyrstu helgina í október. Það er mikil vinna og tími sem fer í það að setja saman svona hátíð og eru allir þeir fjölmörgu yndislegu aðstoðmenn sem að hátíðinni koma orðnir mjög kunnugir þeim reipum sem þarf að toga í svo að svona hátíð geti orðið að veruleika. Við leggjum alltaf mikla áherslu á að stemningin sé létt og skemmtileg, fáum til okkar afar fjölbreyttan og skemmtilegan hóp af áfengisframleiðendum alls staðar af landinu. Við bjóðum upp á ljúffengan mat á Ölverk Pop-up matsölunni, bjóðum upp á glimmer-andlitsmálningu og fáum þaulreynda blómaskreyta þær Blómdísi og Jóndísi til þess að skreyta allt gróðurhúsið og höldum meira að segja Steinholding bruggara-kraftakeppni!“ segir Laufey Sif Lárusdóttir, einn eiganda Ölverks, í samtali við Dagskrána.
Líkt og síðustu ár voru vel valdir tónlistamenn sem spiluðu á hátíðinni en í ár voru það Páll Óskar, Úlfur Úlfur, FM Belfast og DJ Danni Deluxe sem spiluðu fyrir dansi til miðnættis bæði kvöldin.
Sólgleraugu nauðsyn
Aðspurð að því hvort eitthvað hafi verið öðruvísi í ár minnist Laufey á veðrið. „Það hefur stundum loðað við hátíðina haust-rigningar-slagveður en í ár var það ekki raunin heldur var ljúft og sólríkt haustveður alla helgina sem gerði það að verkum að sólgleraugun urðu að nauðsyn. Svo var í ár miklu miklu miklu meira af partýskrauti sem þurfti að þrífa eftir hátíðina en Páll Óskar og félagar komu með að ég held átta glimmer-strimla partý bombur.“
Eina bjórhátíðin í gróðurhúsi
Laufey segir hátíðina ekki endilega vera stærstu bjórhátíðina á Íslandi. „En þetta er eina bjórhátíðin sem fer fram í funheitu gróðurhúsi með blómaskreytingum í hverju horni. Íslenskir bjór- og drykkjarsælkerar eru mjög heppnir að hafa síðustu ár haft aðgang að allt að fjórum bjórhátíðum yfir árið en hver og ein þeirra er algjörlega einstök og nauðsynlegt að prófa að mæta á sem flestar hátíð – hvort sem það er á Bjórhátíð Ölverk, Bjórhátíð The Brothers Brewery, Bjórhátíð Lyst and Bjórhátíðin á Hólum.
Hátíðin komin til að vera
Laufey segir hátíðina vera komna til að vera. „Mæting á þessa hátíð er orðin að hefð hjá stórum hópi af fólki og svo höfum við Elvar Þrastarson, eiginmaður minn, líka mjög gaman af því að hitta alla þessa frábæru bjór og drykkjaframleiðendur sem við köllum vini okkar. Við skemmtum okkur alltaf mjög vel saman og tel ég að gestir hátíðarinnar finni klárlega vel fyrir hinum góða anda sem ríkir á milli allra þessa framleiðanda sem á hátíðina koma.“